Þetta kom fram í Facebookfærslu Guðmundar Inga Kristinssonar, varaformanns flokksins, síðasta þriðjudag eins og DV skýrði frá.
Kallar stjórn Flokks fólksins saman vegna andlegs ofbeldis, hótana og kynferðislegrar áreitni
Í grein á vef Vísis fjalla þeir Brynjólfur Ingvarsson, geðlæknir, og Jón Hjaltason, sagnfræðingur, um þessar ásakanir en þeir eru hluti af forystusveit flokksins á Akureyri. Þeir segja að þeim sé gefið að sök að hafa „sífellt lítilsvirt og hunsað“ konurnar þrjár og sagt þær „vitlausar“ og „geðveikar“. Greinin ber fyrirsögnina: Konurnar segja ósatt og varaformaðurinn lætur hafa sig að fífli.
„Þessar ásakanir setja konurnar fram nauðbeygðar „í kjölfar yfirlýsinga varaformanns Flokks fólksins“ sem birst höfðu skömmu áður á fésbókarsíðu varaformannsins. Samhengið hér á milli vekur óneitanlega upp spurningar en spáum ekki í eyður heldur höldum okkur við staðreyndir,“ segja þeir og bæta við að fullyrðingar kvennanna séu eins fjarri sannleikanum og hugsast geti.
Segja þeir að síðan Brynjólfur náði kjöri í bæjarstjórn Akureyrar hafi forystusveit flokksins á Akureyri fundað nokkuð reglulega. Í forystusveitinni eru konurnar þrjár, Brynjólfur og Jón.
„Á þessum trúnaðarfundum hafa þær aldrei – við undirstrikum aldrei – verið lítilsvirtar, hvað þá kallaðar vitlausar eða geðveikar. Þvert á móti hafa þar allir setið við sama borð, verið jafningjar, og þær ekki síður en undirritaðir haft orðið,“ segja þeir.
Þeir víkja síðan að fundinum þann 10. september og segja að þá hafi Málfríður Þórðardóttir mætt grátandi. „Hefur eitthvað komið fyrir, er hægt að gera eitthvað fyrir þig, eigum við ekki að fresta fundi uns þú hefur jafnað þig? Með þessum orðum var tekið á móti henni. Það hvessti hins vegar þegar umræðan hófst um tilraun hennar og stallsystra til að hrekja Brynjólf úr bæjarstjórn. Sem að vísu átti að gerast undir yfirskini mannkærleika. Semja átti „tilmæli“ þar sem Brynjólfur væri hvattur til að taka sér veikindaleyfi sem hafði þó aldrei verið borið undir hann sjálfan, er hann þó læknir að mennt,“ segja þeir í grein sinni um viðbrögðin við komu Málfríðar og því sem á eftir fylgdi.
Segja þeir að Jón hafi þá sagt að hans skoðun væri að ræða hefði átt tilmæli af þessu tagi fyrst við meintan sjúkling og beindi hann þeirri spurningu til Málfríðar hvort hún væri því ósammála. Segja þeir að hún hafi ítrekað vikið sér undan að svara. Þá hafi Jón barið í borðið og heimtað ákveðið svar. „Þetta er allt „ofbeldið“ sem þessar konur geta mögulega kvartað undan,“ segja þeir í greininni.
„Að lokum um hið „kynferðislega áreiti“ sem „sumar okkar“ hafa orðið fyrir svo vitnað sé beint í skrif kvennanna. Okkur setur einfaldlega hljóða við þessi orð og áleitin spurning situr eftir: Hversu lágt getur mannskepnan lagst til að koma höggi á náunga sinn?“ segja þeir og ítreka síðan kröfu sína um að konurnar þrjár dragi ummæli sín til baka og biðjist opinberlega afsökunar.