Þetta kemur fram í nýrri bók, Confidence Man: The Making of Donald Trump and the Breaking of America eftir Maggie Haberman sem starfar sem stjórnmálaskýrandi hjá CNN og er blaðamaður hjá New York Times. Bókin er um forsetatíð Trump og þá ringulreið sem ríkti eftir ósigur hans í forsetakosningunum.
„Við förum aldrei. Hvernig getur þú farið þegar þú sigraðir í kosningum?“ sagði hann við annan aðstoðarmann sinn að því er segir í bókinni.
Einnig kemur fram í bókinni að heyrst hafi í Trump kvarta og kveina við Ronna McDaniel, formann landsnefndar Repúblikanaflokksins og spyrja hana: „Af hverju á ég að fara ef þeir stálu þessu frá mér?“ Þar á hann við að kosningaúrslitunum hafi verið stolið frá honum.
Enginn af fyrirrennurum Trump hótaði að sitja sem fastast í Hvíta húsinu etir að forsetatíð þeirra lauk.
Þessi ummæli Trump eru þvert á það sem hann sagði í opinberum yfirlýsingum tæpum mánuði eftir kosningarnar en þá sagði hann að hann myndi „örugglega“ yfirgefa Hvíta húsið ef sigur Biden yrði staðfestur. „Það mun ég gera og þið vitið það,“ sagði hann um leið og hann hélt áfram að halda fram staðlausum fullyrðingum um að rangt hefði verið haft við í kosningunum. The Guardian skýrir frá þessu.