Olís og Ísorka hafa undirritað samstarfssamning um uppbyggingu á neti hraðhleðslustöðva sem staðsettar verða á þjónustu- og sjálfsafgreiðslustöðvum Olís um allt land. Stefnt er að uppbyggingu 20 staðsetninga innan tveggja ára þar sem rafbílaeigendur geta hlaðið bifreiðar sínar með fyrsta flokks búnaði. Með samstarfinu gefst báðum aðilum tækifæri til efla þjónustu við viðskiptavini sína og leggja kröftug lóð á vogarskálarnar í þeim orkuskiptum sem framundan eru.
Á komandi mánuðum verður hafist handa við fyrstu staðsetningarnar og stefnt er að því 6-8 nýjar staðsetningar verði komnar í notkun fyrir áramót. Notast verður við búnað í hæsta gæðaflokki og þau þjónustukerfi sem Ísorka hefur þróað á undanförnum árum. Stærstur hluti stöðvanna verða staðsettar við þjónustustöðvar Olís þannig að viðskiptavinum gefist tækifæri til að sækja sér breiðari þjónustu meðan á hleðslu stendur.
Ísorka er leiðandi aðili á Íslandi í hleðslulausnum og hefur verið mikilvægur aflvaki þeirrar rafbílavæðingar sem nú stendur yfir. Olís hefur þjónustað bifreiðaeigendur í hartnær öld og býr yfir heppilegum staðsetningum fyrir fólk á ferðinni um land allt. Með því að sameina krafta sína vonast fyrirtækin til þess að geta veitt vaxandi hópi rafbílaeigenda fjölbreytta þjónustu í hæsta gæðaflokki.
„Við hjá Olís erum mjög ánægð að geta eflt staðsetningar okkar í gegnum breiðara þjónustuframboð og samhliða lagt lóð á vogarskálarnar í yfirstandandi orkuskiptum. Ísorka eru frumkvöðlar í hleðslulausnum á Íslandi og við berum mikið traust til þeirra sem samstarfsaðila. Það er kjarnamarkmið hjá okkur að fjölga vinum við veginn – bæði viðskiptavinum og samstarfsaðilum – og þetta er stórt skref í átt að því marki. Sú uppbygging sem er framundan er því mikið fagnaðarefni fyrir bæði okkur og rafbílaeigendur,“ segir Frosti Ólafsson, framvæmdastjóri Olís.
,,Þetta er stór áfangi fyrir Ísorku. Verkefnið er krefjandi en á sama tíma virkilega spennandi. Við finnum mjög fyrir þörfinni hjá okkar viðskiptavinum og því gleðiefni að þetta samstarf með Olís sé orðið að veruleika. Ísorka er leiðandi afl í hleðslulausnum og því gleðjumst við mjög að jafn öflugt og traust félag eins og Olís taki höndum saman með okkur og öllum núverandi og framtíðar rafbílaeigendum til almennar gleði. Það má segja að saman séum við að draga verulega úr hleðslu- og drægnikvíða þjóðarinnar,“ segir Sigurður Ástgeirsson, framkvæmdastjóri Ísorku.