Nýverið réði Aton.JL samskiptafélag til starfa þær Guðrúnu Eddu Guðmundsdóttur, Stefaníu Reynisdóttur og Vigdísi Perlu Maack. Guðrún Edda og Stefanía starfa sem ráðgjafar og Vigdís sem verkefnastjóri. Í fréttatilkynningu kemur fram að þær hafi allar þrjár hafið störf.
Guðrún Edda er menntaður lögfræðingur frá lagadeild Háskóla Íslands. Hún starfaði hjá Fangelsismálastofnun í yfir tíu ár. Hún hefur umtalsverða reynslu af opinberri stjórnsýslu en áður starfaði hún sem lögfræðingur hjá dómsmálaráðuneytinu og hefur setið í fjölmörgum ólíkum nefndum og starfshópum á vegum hins opinbera. Guðrún Edda sat í stjórn Orators, félags laganema, og tók virkan þátt í starfi þess. Hún starfaði við ýmsa menningartengda starfsemi um árabil, s.s. hjá Leikfélagi Íslands og við sjálfstæðar uppsetningar leiksýninga og tónleika. Auk þessa hefur hún undanfarið haft aðkomu að veitingarekstri, nú síðast veitingastaðarins Kastrup.
Stefanía er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MSc gráðu í alþjóðasamskiptum frá Háskólanum í Edinborg. Í námi sínu hefur hún lagt áherslu á kenningar í alþjóðasamskiptum og öryggisfræðum með áherslu á Evrópumál og málefni Norðurslóða. Síðustu þrjú ár hefur Stefanía starfað við samskipti, upplýsingamiðlun og pólitíska greiningu. Hún kemur til Aton.JL frá Brussel þar sem hún starfaði hjá Eftirlitsstofnun EFTA sem hefur eftirlit með framkvæmd EES samningsins á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein.
Vigdís Perla er menntuð sem framleiðslustjóri/Production Manager frá The National Film and Television School í London. Hún hefur unnið í leikhúsi í 15 ár, fyrst í Þjóðleikhúsinu en svo lengst af sem sýningarstjóri í stærstu söngleikjum Borgarleikhússins. Hennar helstu verkefni voru að stýra sviðsteymi, listrænum stjórnendum, leikurum og dönsurum, í sýningum á borð við MAMMA MIA, Rocky Horror, Níu líf. Þá hefur hún einnig starfað á RÚV sem aðstoðar-framleiðandi.
„Haustið hefur farið mjög vel af stað og við finnum fyrir stöðugt aukinni aðsókn í þjónustu okkar. Því fylgir aukin breidd í verkefnum og viljum við mæta þeirri eftirspurn með því að fá í okkar frábæra hóp fólk með ólíkan bakgrunn og reynslu. Það er mikill fengur í því að fá þær Guðrúnu Eddu, Stefaníu og Vigdísi til liðs við okkur,“ segir Sif Jóhannsdóttir, rekstrarstjóri Aton.JL.