fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Mogginn hjólar í lengingu fæðingarorlofs og styttingu vinnuvikunnar – „Er ekki bara einfaldara að hætta þessari vinnu allri?“

Eyjan
Miðvikudaginn 7. september 2022 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Staksteinar eru ritstjórnarefni sem birtist í prentaðri útgáfu Morgunblaðsins. Greinarnar eru ekki höfundamerktar en koma þó að öllum líkindum frá meðlimi ritstjórnar. Að þessu sinni velta Staksteinar fyrir sér umræðunni um leikskólamálin hjá borginni og er bent á að Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hafi á borgarstjórnarfundi í gær reynt að varpa ábyrgðinni á stöðunni í leikskólamálum borgarinnar, sem hafa undanfarið verið harðlega gagnrýnd, yfir á ríkið í formi þess að lengja fæðingarorlofið.

„Þegar fólk er búið að lofa of miklu í ermina á sér og blekkja kjósendur of oft fyrir kosningar er gott að geta beint umræðunni annað. Það kann að vera skýringin á því að Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og sá sem ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra Samfylkingar, Pírata, Framsóknar og Viðreisnar, ber hvað mesta ábyrgð á ástandi leikskólamála í Reykjavík, reyndi á borgarstjórnarfundi í gær að beina athyglinni að fæðingarorlofi.“ 

Staksteinar benda á að nú sé ljóst að borgin geti ekki staðið við gefin loforð og því hafi Skúli spilað því spili að frekar þyrfti að ræða lengingu á fæðingarorlofi upp í 18 eða 24 mánuði.

„Fæðingarorlofið var nýlega lengt upp í 12 mánuði en nú hentar meirihlutanum í Reykjavík að skella skuldinni af leikskólavandanum á of stutt fæðingarorlof.“ 

Staksteinar segja að þetta sé þó í takti við umræðuna í samfélaginu um að minnka vinnu almennings.

„Nú eru gerðar kröfur um að stytta vinnuvikuna úr fimm dögum í fjóra og eflaust stutt í að krafan verði þrír dagar, enda fjórir verulega íþyngjandi. 

Svo er farið fram á að allir fái 30 daga orlof frá fyrsta starfsdegi sem þýðir 6 vikur miðað við fimm daga vinnuviku en rúmar 7 vikur í fjögurra daga kerfinu.“ 

Staksteinum lýkur svo á því að þeirri spurningu er velt upp hvort ekki ætti hreinlega að leggja allar vinnur niður með öllu.

„Er ekki bara miklu einfaldara að hætta þessari vinnu allri saman, taka upp borgaralaun og sjá hvort það tryggi ekki velmegun þjóðarinnar til framtíðar.“ 

Styttri vinnuvika talin skila sér í meiri starfsánægju og minni streitu

Er þar að líkindum vísað til kröfugerðar VR í komandi kjarasamningsviðræðum þar sem má finna kröfuna um að orlof verði aukið úr 24 dögum yfir í 30 daga og að vinnuvikan verði stytt í fjóra daga eða 32 vinnustundir – án skerðingar á launum.

Stytting vinnuvikunnar hefur verið mikið rædd frá síðustu kjarasamningum og hefur unnist á sumum vinnustöðum, einkum hjá ríki og sveitarfélögum að stytta vinnuvikuna allt niður í 36 klukkustundir.

Rök fyrir því hafa verið að í nágrannalöndum þar sem vinnuvika hafi verið stytt hafi framleiðni jafnvel aukist þar sem fólk vinni betur þegar það hefur aukinn frítíma. Það dragi úr streitu, dragi úr því að launþegar þurfi að skreppa til að sinna einkaerindum á vinnutíma, auki samverustundir fjölskyldna og geti leitt til styttri vistunar barna á leikskólum, svo dæmi séu tekin.

Í Svíþjóð hafa fjölmörg fyrirtæki og stofnanir boðið starfsfólki upp á 30-35 klukkustunda vinnuviku án launaskerðingar, bæði tímabundið og ótímabundið. Helstu kostirnir eru sagðir bætt líðan og heilsa starfsfólks sem leiði til færri veikindadaga, minni starfsmannaveltu og aukinnar starfsánægju – allt séu þetta þættir sem bæta framleiðni og skilvirkni.  Hins vegar leiði þetta vissulega til kostnaðarauka hjá atvinnurekendum sem framleiðnin geti ekki alltaf vegið á móti.

Íslendingar þunglyndir og útkeyrðir

Í umræðunni um styttingu vinnuvikunnar hefur eins ítrekað verið bent á að Íslendingar hafi í gegnum tíðina unnið mun lengri vinnudag en þær þjóðir sem við helst berum okkur saman við. Eins hefur verið bent á að aukin tæknivæðing í samfélaginu hafi skapað vettvang fyrri styttri vinnuviku.

Ljóst er að Íslendingar nota mest af tauga- og geðlyfjum af öllum Norðurlandaþjóðunum. Samkvæmt upplýsingum Hafstofu um árið 2019 höfðu 7,7 prósent Íslendinga eldri en 15 ára fundið fyrir einkennum þunglyndis á því ári. Það sé hærra en meðaltalið innan Evrópusambandsins sem mældist 7 prósent. Í raun hefur verið talað um að Íslendingar séu nálægt því að verða heimsmeistarar í notkun þunglyndislyfja, en samkvæmt nýlegum upplýsingum frá Landlækni hafi tvær af hverjum tíu konum og einn af hverjum tíu körlum verið á SSRI þunglyndis- og kvíðalyfjum á síðasta ári.

Samkvæmt könnun sem Prósent gerði í nóvember á síðasta ári upplifðu 32 prósent Íslendinga, 18 ára og eldri, á vinnumarkaði sig útkeyrða í lok vinnudags oftar en einu sinni í viku og 21 prósent svarenda sögðust tilfinningalega úrvinda vegna vinnu sinnar oftar en einu sinni í viku og 12 prósent töldu sig vera útbrennda vegna starfs síns oftar en einu sinni í viku.

Varðandi lengingu fæðingarorlofs er skemmst að minnast þeirra fjölmörgu sem fram hafa stigið í umræðunni undanfarnar vikur og vakið athygli á því að börnum sé best að verja fyrstu tveimur árum lífs síns í faðmi foreldra. Í Svíþjóð til að mynda er fæðingarorlofið 480 vinnudagar.

Sjá einnig: „Ekki eignast barn fyrr en þið hafið tíma til að gera það sem er best fyrir barnið ykkar“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt