Svona hefst leiðari Fréttablaðsins í dag en hann skrifar Guðmundur Gunnarsson og ber hann fyrirsögnina „Meinið“.
Segir Guðmundur að í skýrslunni verði það útlistað sem hefði hugsanlega verið hægt að gera pínulítið öðruvísi varðandi framkvæmd sölunnar. „Á stofnanamáli. Það er allt og sumt. Með öðrum orðum, hún mun ekki innihalda neitt af því sem Íslandsbankagjörningurinn raunverulega afhjúpar. Það er nefnilega ekki framkvæmdin við söluna sem skiptir máli, heldur ásetningurinn. Ákvörðunin um að gera þetta með þessum hætti. Sleppum stofnanamálinu,“ segir Guðmundur.
„Aðferð lokaðs útboðs var beitt í Íslandsbankamálinu til þess að tryggja að rétta fólk fengi að kaupa. Þess vegna hringdu vel valdir miðlarar í suma en ekki aðra. Þeir sem ákváðu þetta vissu alveg að verðbréfamiðlararnir myndu hegða sér með þessum hætti. Enda afhjúpar listi yfir kaupendur, sem er eins og fimmtán ára gamall gestalisti inn á Skuggabarinn, þetta allt saman. Stútfullur af vinum og vandamönnum úr síðasta matarboði. Ásamt miðlurunum sjálfum auðvitað,“ segir hann og bætir við að þeir allra meðvirkustu hafi verið iðnir við að réttlæta þetta fúsk með því að benda á þessi aðferð sé þekkt erlendis.
„Það kann að vera. En það er ekki þar með sagt að hún henti í samfélagi sem er svo lítið að því er stýrt af einstaklingum og ráðamönnum sem ýmist gengu saman í skóla eða tengjast fjölskylduböndum. Hringur valdsins á Íslandi er of þröngur til að við getum treyst því að lokuð sala á ríkiseign verði ekki misnotuð. Enda átti þessi aðferð aldrei að koma til tals, en varð samt fyrir valinu. Af ákveðinni ástæðu. Þetta bankasölumál snýst ekki um pólitískan skotgrafahernað eða skeytasendingar á milli ráðuneyta. Það snýst heldur ekki um það hver seldi pabba sínum hvað. Salan á Íslandsbanka snýst um endurteknar tilraunir örfárra manna til að sölsa undir sig eignir og auðlindir þjóðarinnar. Þetta mál er enn einn kaflinn í áratugalangri sögu íslenskrar sérhagsmunagæslu. Það er stóra myndin sem við eigum að vera að ræða. Meinið sem við eigum að vera að uppræta. Skýrsla Ríkisendurskoðunar mun ekki gera neitt fyrir okkur í þeim efnum,“ segir hann að lokum.