Björn Leví Gunnarsson, varaforseti forsætisnefndar og þingmaður Pírata, sagði í samtali við Fréttablaðið að ekkert sé að frétta af málinu. „Þetta hreyfist ekkert hjá honum Birgi [Ármannssyni, forseta forsætisnefndar] sem er ákvarðanafælnasti maður sem ég veit um. Hann þarf alltaf að fá eitthvert annað álit,“ sagði hann og sagðist ekki búast við að neitt gerist í málinu fyrr en Alþingi kemur aftur saman í september.
Hann sagði önnur mál hafa dregið að sér athyglina, til dæmis söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka og skipun Hörpu Þórsdóttur í embætti þjóðminjavarðar. „Það kemur alltaf eitthvað nýtt í staðinn sem lætur alla gleyma gamla dótinu, kannski er verið að bíða eftir því að enginn skipti sér af þessu,“ sagði Björn Leví.