Í tilkynningu frá Hagstofu Íslands kemur fram að síðastliðna tólf mánuði hafi vísitala neysluverðs hækkað um 9,7 prósent, en þetta felur í sér að verðbólgan er nú minni heldur en hún mældist í júlí er hún var 9,9 prósent.
Vísitala neysluverðs hækkar um 0,29 prósent frá fyrri mánuði og vísitala neysluvarðs án húsnæðis hækkar um 0,04 prósent frá því í júlí.
Í tilkynningu Hagstofu segir að nú sé sumarútsölum að ljúka og hafi verð á fötum og skóm hækkað um 3,5 prósent og verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hækkað um 6,4 prósent.
Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hafi hækkað um 0,9 prósent og verð á flugfargjöldum til útlanda hafi lækkað um 8,7 prósent og verð á bensíni og olíum lækkað um 3,9 prósent.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis hafi hækkað um 7,1 prósent á síðustu 12 mánuðum.
Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikning nú í ágúst gildir til verðtryggingar í október.