Borgarráð hefur samþykkti að að grípa til aðgerða til að auka sveigjanleika starfsfólks Reykjavíkurborgar við starfslok vegna aldurs. Meðal annars var samþykkt að skoðað verði sérstaklega af hálfu borgarinnar hvernig koma megi til móts við kröfur um aukinn sveigjanleika við starfslok við undirbúning komandi kjarasamningsviðræðna. Þannig verði m.a. endurskoðaður hámarksaldur í starfi hjá Reykjavíkurborg sem er nú 70-72 ár skv. kjarasamningum borgarinnar.
Skoða sveigjanleika í báðar áttir
Borgarstjóri skipaði starfshóp um sveigjanleg starfslok í september á síðasta ári og var hópurinn skipaður fulltrúum Reykjavíkurborgar og viðsemjenda borgarinnar auk þess sem hann hafði samráð við hagaðila, m.a. öldungaráð borgarinnar. Meðal niðurstaðna starfshópsins er að skoða þurfi sveigjanleikann í báðar áttir, hann eigi ekki aðeins við um möguleikann á að hætta síðar heldur einnig að hætta eða draga úr störfum fyrir 67 ára aldur. Fram kemur að breytt aldurssamsetning þjóðarinnar og heilsufar, ákall um meira val starfsmanna varðandi starfslok og sjónarmið um að starfslok byggist ekki á aldursmismunun eða fordómum séu meðal þátta sem kalli á nýja nálgun. Einnig sé mikilvægt að nýta þekkingu og reynslu þeirra sem eldri eru og að henni verði miðlað áfram til annarra starfsmanna/kynslóða.
Þróunarverkefni til tveggja ára
Tillögurnar sem samþykktar voru á fundi borgarráðs 18. ágúst fela auk framangreinds m.a. í sér að sett verður af stað þróunarverkefni til tveggja ára um sveigjanleg starfslok hjá Reykjavíkurborg. Þróunarverkefnið verður til tveggja ára, mun taka til afmarkaðra hópa starfsmanna og er starfshópi sem mun halda utan um verkefnið ætlað að gera tillögur um nauðsynlegar breytingar til að hægt verði að bjóða upp á sveigjanlegri starfslok. Í þróunarverkefninu verður m.a. sérstaklega hugað hvernig þarfir starfsfólks fara saman með þörfum starfsstaða, hvernig koma megi til móts við þann hóp sem vinnur líkamlega erfið og slítandi störf, leiðum til að fólk geti unnið lengur en til 70 eða 72ja ára aldurs ef það óskar, hvernig auka megi sveigjanleika, s.s. með tilliti til viðveru og hvernig starfið er unnið og hlutastörfum, s.s. hvort rétt sé að auka fjölbreytni þeirra.
Reykjavíkurborg vill vera leiðandi
Reykjavíkurborg vill vera leiðandi í að skoða og þróa leiðir til að koma til móts við breyttar þarfir starfsfólks, starfsstaða og samfélagsins um starfslok vegna aldurs enda getur aukinn sveigjanleiki varðandi það hvenær og hvernig fólk lýkur atvinnuþátttöku getur leitt til bæði efnahagslegs og heilsufarslegs ábata fyrir samfélagið.