The Guardian skýrir frá þessu. Í bréfinu segir hann að árásir Repúblikana á lýðræðið séu ekki eina „tilvistarógnin“ sem stafi af flokknum. „Áhyggjur mínar af plánetunni okkar og loftslagsbreytingunum, sem við stöndum frammi fyrir, hafa aukist mikið,“ segir hann í bréfinu sem hann birti á samfélagsmiðlum á mánudaginn.
„Repúblikanaflokkurinn, sem ég gekk til liðs við fyrir mörgum áratugum, bjó til þjóðgarða, varðveitti alríkisland og verndaði villt líf. Nixon forseti skrifaði undir lögin um stofnun umhverfisverndarstofnunarinnar. Í dag myndu félagar mínir í Repúblikanaflokknum frekar afneita því að loftslagsbreytingarnar séu af mannavöldum en grípa til aðgerða,“ segir hann einnig.
Hann segir að tilraunir Repúblikana til að koma í veg fyrir „skynsamlegar aðgerðir í loftslagsmálum“ þýði að hann geti ekki lengur setið þegjandi hjá.
Hann var kjörinn á þing 2020 til fimm ára. Colorado var eitt sinn eitt af höfuðvígum Repúblikana en hefur færst til vinstri á síðustu árum og áður en Priola gekk til liðs við Demókrata voru þeir í meirihluta í öldungadeild þingsins, 20 á móti 15 Repúblikönum.
Hann gagnrýnir einnig stefnu Repúblikanaflokksins undir forystu Donald Trump og segist hafa beðið eftir að flokkurinn myndi loksins fjarlægast Trump í kjölfar árásarinnar á þinghúsið í Washington DC á síðasta ári.
Hann hrósar „hugrökkum og heiðarlegum“ Repúblikönum sem gagnrýndu Trump eftir árásina og nefnir þar á meðal Mitt Romney og Liz Cheney.
„Ég get ekki haldið áfram að vera í stjórnmálaflokki sem segir það í lagi að reyna að snúa úrslitum frjálsra og réttmætra kosninga við með ofbeldi og reynir enn að halda því fram að kosningasvik hafi átt sér stað 2020,“ segir hann einnig.
Í lokinni segir hann síðan: „Við þurfum að hafa Demókrata við stjórnvölinn því framtíð plánetunnar og lýðræðisins veltur á því.“