Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segist finna til með þeim tugþúsundum landsmanna sem ekki geta náð endum saman frá mánuði til mánaðar. Fékk hann póst frá konu í morgun sem greindi honum frá því að leiga hennar hafi hækkað um 50 þúsund krónur á 15 mánuðum.
Það hafi verið þungt að frétta af hækkun stýrivaxta í morgun, en þeir munu hækka um 0,75 prósent, og Vilhjálmur telur fyrirséð að þessi hækkun muni leggjast þungt á heimili landsins. Allur ávinningur síðustu kjarasamninga hafi verið þurrkaður út, en á sama tíma séu þeir ríku að verða ríkari. Ekki verði annað séð en að launafólk muni rísa upp af hörku í haust.
Vilhjálmur ritar um þetta í pistli á Facebook:
„Ég skal fúslega viðurkenna að ég finn ofboðslega til með þeim tugþúsundum í íslensku samfélagi sem ekki ná endum saman frá mánuði til mánaðar.
Ég fékk t.d. póst í morgun frá konu sem sýnir mér að leigan hjá henni hefur hækkað úr 190.000 krónum í 240.000 eða sem nemur 50.000 krónum eða um 26,3%.
Þessi hækkun er frá apríl 2021 til júlí 2022 eða á 15 mánaða tímabili.
Til að hafa 50.000 kr. í ráðstöfunartekjur þarf um 80.000 kr. í launatekjur og því má segja að hjá þessari konu hafi launahækkanir sem hún hefur fengið á síðustu 4 árum farið nánast allar í að standa undir hækkun á leigu.“
Vilhjálmur bendir á að þarna megi líka reikna inn allar aðrar kostnaðarhækkanir sem hafi dunið á launafólki, neytendum og heimilum á Íslandi undanfarna mánuði.
Nú hafi Seðlabankinn enn aftur hækkað stýrisvexti og muni þeir leggjast þungt á þau heimili sem eru með lán sem bera breytilega vexti.
„Það er morgunljóst að allur ávinningur af síðasta kjarasamningi hefur verið þurrkaður upp með vaxtahækkunum, leiguverði, matarverði og öllum öðrum kostnaðarhækkunum sem opinberir og aðrir þjónustuaðilar varpa miskunnarlaust á herðar neytenda.“
Á sama tíma og óveðurský hrannist upp hjá almenningi sé hægt að lesa á hátekjulista Stundarinnar ótrúleg laun yfirstéttarinnar sem sýni svart og hvítu misskiptingu gæða í landinu.
„Á sama tíma og þessi óveðursský hrannast upp hjá alþýðu þessa lands les maður í blaðinu Stundinni gjörsamlega sturlaðar launa- og fjármagnstekjur yfirstéttarinnar á Íslandi. Þar sem staðfestist botnlaus og skefjalaus græðgi og gríðarleg misskipting, ójöfnuður og óréttlæti.
Ég get ekki séð annað en að launafólk muni rísa upp af fullri hörku þegar kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði renna út því það er ljóst að það eru svo sannarlega tvær þjóðir í þessu landi.
Ég verð að taka undir með Styrmi Gunnarssyni heitnum sem kallaði valdastéttina „djúpríki“ og að þetta væri ógeðslegt þjóðfélag, engin prinsipp, engar hugsjónir!“