Fram undan eru kjarasamningsviðræður á almennum vinnumarkaði og hefur verið ljóst um nokkurt skeið að töluverð harka verði í viðræðunum, enda verðbólga há og að stýrivextir hafa hækkað gífurlega á skömmum tíma, en þetta hefur bein áhrif á hag heimilanna í landinu.
Nú hafa VR og LÍV birt kröfugerð sína vegna kjarasamninganna en í henni segir að aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði sé óhjákvæmileg þar sem staðan í dag kalli á mikilvægar breytingar á grundvallarkerfum íslensks samfélags.
VR og LÍV gera þær kröfur til stjórnvalda að þau: „afnemi verðtryggingu á neytendalánum, lækki álögur og skatta á launafólk og lækki virðisaukaskatt á nauðsynjavörum.“
Í kröfugerð kemur eins fram að uppstokkunar sé þörf á húsnæðismarkaði og þurfi að gera þjóðarsátt um næstu skref. VR og LÍV krefjast þess að þak verði sett á leigu, ungu fólki auðvelduð fyrstu kaup með auknum stuðningi frá hinu opinbera og að lóðaframboð verði aukið verulega með aðkomu sveitarfélaga.
„Framboð húsnæðis, hvort heldur er til eignar eða leigu, er í engu samræmi við eftirspurn og fáir sem geta komið sér þaki yfir höfuðið.“
Eins er þess krafist að stjórnvöld hlúi betur að þeim sem þurfi meiri aðstoð með því að minnka skerðingar í almannatryggingakerfinu, afnema tekjutengingar bóta og að sálfræðiaðstoð verði niðurgreidd.
Varðandi launaliðinn kemur fram í kröfugerðinni að verja þurfi þann árangur sem náðist í lífskjarasamningunum hvað þau sem eru á lægstu launum varði og eins tryggja að launafólk fái notið jafnræðis þegar kemur að launahækkunum.
„Aukinn kaupmáttur ráðstöfunartekna liggur til grundvallar launakröfum VR og LÍV og að launafólk geti lifað mannsæmandi lífi á dagvinnulaunum sínum. Lágmarkslaun eiga að duga til framfærslu samkvæmt þeim viðmiðum sem fyrir liggja.“
Þess er krafist að stjórnvöld kom að borðinu með aðgerðir til að styrkja launalið kröfugerðarinnar til dæmis í skatta- og vaxtamálum, með hækkun barnabóta og afnámi verðtryggingarinnar.
Fleiri metnaðarfullar kröfur má finna í kröfugerðinni svo sem að orlof verði aukið úr 24 dögum yfir í 30, að veikindaréttur verði sveigjanlegri og að vinnuvikan verði stytt í fjóra daga eða 32 vinnustundir – án skerðingar á launum.
Eins má finna kröfur um aukinn uppsagnarfrest þegar starfsaldur er orðinn mikill í tilvikum er launþegum er sagt upp störfum. Eins er þess krafist að rammasamningur á almennum vinnumarkaði um fjarvinnu verði tekinn til endurskoðunar til að tryggja betur réttindi fjarvinnustarfsfólks og ásættanlega vinnuaðstöðu, starfsfólki að kostnaðarlausu og að ákvæði um fjarvinnu verði sett í aðalkjarasamning.
Í kröfugerðinni má eins finna kröfur um fleiri stórhátíðardaga. Að 1. maí verði stórhátíðardagur og að aðfangadagur og gamlársdagur verði stórhátíð allan daginn.
Mun fleiri kröfur má finna í kröfugerðinni en hana má lesa í heild sinni hér