Þetta mál er umfjöllunarefni í pistli eftir Björn Leví Gunnarsson, þingmann Pírata, í Morgunblaðinu í dag en hann ber fyrirsögnina „Að selja ríkiseign“.
Björn rifjar upp að salan hafi farið fram með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi sem hafi verið beint sérstaklega að hæfum fagfjárfestum en ekki almennum fjárfestum. Þetta þýði í raun að útboðið hafi ekki verið opið og öllum aðgengilegt. Þetta sé mikilvægt atriði.
„Fljótlega komu í ljós mjög alvarlegar vísbendingar um að margt hefði farið úrskeiðis í söluferlinu. Á nefndarfundum í kjölfarið kom fram að mismunandi kaupendur hefðu verið skertir mismikið, kaupendur fengu ekki að kaupa eins mikið og þau vildu á því verði sem þau buðu. Eins og þingmaður VG í efnahags- og viðskiptanefnd sagði, þá bjuggust allir við því að það væri verið að selja kjölfestufjárfestum. Kynningarnar fyrir bæði fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd voru þannig,“ segir Björn og bætir við að búist hafi verið við að lífeyrissjóðir og aðrir stórir aðilar myndu kaupa hlut í bankanum í því skyni að verða endanlegir eigendur hans þegar ríkið selji afganginn af hlutabréfum sínum.
„Þótt lífeyrissjóðir hafi keypt mest í þessu útboði þá fengu þeir minna en þeir buðu og stórum hópi smærri fjárfesta var hleypt inn í söluferlið með afslætti, þar á meðal föður fjármálaráðherra. Nú hefur fjármálaráðherra sagt að hann hafi ekki vitað að faðir hans væri meðal kaupenda og viðurkennir hann þar vanrækslu. Í lokuðu útboði verður ráðherra að vita hvort hann sé að selja tengdum aðilum því það er ekki til skýrara dæmi um spillingu en að selja ættingjum ríkiseigur, hvað þá á afslætti. Skortur á þekkingu er engin afsökun, því það er skylda ráðherra að ganga úr skugga um hæfi sitt til þess að taka svona ákvörðun. Ef ráðherra vissi þetta raunverulega ekki vanrækir hann starf sitt. Ef ráðherra vissi að faðir hans var kaupandi er það spilling. Vandinn er að við komumst örugglega aldrei að því um hvort brotið er að ræða. Annað hvort er það. Hjá því verður ekki komist,“ segir Björn og segir að þetta sé skýrt í stjórnsýslulögum.
Hann bendir síðan á að margoft hafi ráðherrar stigið til hliðar, til dæmis þegar ættingjar þeirra sæki um embætti sem þeir skipa í. Það sé útilokað að ráðherra geti skipað föður sinn sem embættismann og ef það myndi gerast gæti ráðherrann ekki sagt að hann hafi ekki vitað að hann væri að skipa föður sinn í embætti. „Þetta vita allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar. Þetta vita allir þingmenn ríkisstjórnarinnar. Það er alveg klárt að ráðherra er vanhæfur til þess að ráða föður sinn í vinnu og hann er vanhæfur til þess að selja föður sínum ríkiseigur. Það er merkilegt að ríkisstjórnin þurfi einhverja skýrslu til þess að segja það en þannig virkar samtryggingin,“ segir hann síðan að lokum.