Dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þjóðfræðingur, rithöfundur og fyrrverandi alþingismaður hefur verið ráðin deildarforseti við félagsvísindadeild Háskólans á Bifröst. Þetta kemur fram í tilkynningu skólans þar sem Ólína er boðin velkomin til starfa.
Ólína er með BA-próf í íslenskum bókmenntum og heimspeki frá Háskóla Íslands. Að auki hefur hún lokið magisterprófi og síðar doktorsprófi í íslenskum bókmenntum og þjóðfræðum. Hún hefur einnig numið stjórnunarfræði og er með kennsluréttindi á framhaldsskólastigi.
Frá 2016 hefur Ólína verið sjálfstætt starfandi fræðimaður, rithöfundur, bókmenntagagnrýnandi og kennari og meðal annars kennt við Háskólann á Bifröst síðustu tvö skólaárin.
Hún hefur gefið út fjölda fræðigreina og átta bækur, þar af sex fræði- og heimildarrit. Hún hlaut árið 2019 tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita fyrir bókina Lífsgrös og leyndir dómar. Lækningar, töfrar og trú í sögulegu ljósi.
Hún var um tíma skólameistari við Menntaskólann á Ísafirði og býr að 14 ára kennslureynslu á háskólastigi og tók meðal annars þátt í að byggja þjóðfræði upp sem kennslu- og fræðigrein við Háskóla Íslands.
Hún sat á þingi á árunum 2009-2013 fyrir Samfylkinguna og svo aftur 2015-2016 og var á þeim tíma meðal annars formaður umhverfisnefndar, varaformaður atvinnuveganefndar, forseti Vestnorræna ráðsins og varaforseti Norðurlandaráðs.
Hún var borgarfulltrúi í Reykjavík á árunum 1990-1994 og um hríð var hún fréttamaður og dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu.
Ólína tekur við af dr. Nirði Sigurjónssyni sem hefur gegnt embætti deildarforseta síðustu tvö ár.
Ólína segir á Facebook að hún sé full tilhlökkunar að takast á við spennandi verkefni sem forstei Félagsvísindadeildar og bíður hún spennt eftir mánaðamótunum þegar hún tekur formlega við starfinu.