Tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir var ómyrk í máli í viðtali við The Guardian þegar hún sagðist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra. En Katrín hafi gert samkomulag við Björk og loftlagsaktívistann Gretu Thunberg um að lýsa yfir neyðarástandi í lofslagsmálum.
Fréttamenn Vísis báru ummæli Bjarkar undir Katrínu að loknum ríkisstjórnarfundi í dag þar sem Katrín sagði að sér þætti leitt að Björk hafi orðið fyrir vonbrigðum.
„Já, það er leitt en ég held að þegar til lengri tíma er horft skipti mestu máli að við, Ísland, náum árangri í raunverulegum aðgerðum í að draga úr losun gróðurhúsategunda og ná kolefnishlutleysi.“
Málið hafi verið rætt á fundi ríkisstjórnar og hafi verið tekin ákvörðun um að taka aðra nálgun á málið.
„Við vildum leggja áherslu á aðgerðir sem skila árangri,“ sagði Katrín. Ljóst væri að loftslagsmál væru að valda vanda víða í heimi og væri kominn tími á aðgerðir frekar en orð.
Björk sagði einnig í áðurnefndu viðtali að Katrín hafi ekkert gert fyrir umhverfið síðan hún tók við embætti. Katrín segir það rangt. Ísland sé framarlega á sviði loftslagsmála og hafi ríkisstjórnin lagt áherslu á markvissar aðgerðir til að ná þeim árangri.