fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Eyjan

Segja „sjóræningjastarfsemi“ þrífast á Íslandi – „Þetta er algerlega óásættanlegt og verður að laga strax“

Eyjan
Mánudaginn 15. ágúst 2022 19:00

Mynd úr safni

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Baldur Sigmundsson, lögfræðingur Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) og Gunnar Valur Sveinsson, verkefnastjóri SAF segja að sjóræningastarfsemi þrífist í farþegaflutningum á landinu og virðist sem svo að stjórnvöld láti sér í léttu rúmi liggja að hér þrífist starfastuldur og félagslegt undirboð. 

Þeir rita um þetta grein sem birtist hjá Vísi.

Skortur á eftirliti og viðurlögum

Þeir benda á að Alþingi hafi á síðasta ári samþykkt breytingu á lögum um farþegaflutninga sem hafi vakið von í brjósti íslenskra rekstraraðila hópbifreiða um að „starfastuldur og félagslegt undirboð“ erlendra hópbifreiðafyrirtækja væri úr sögunni.

Í þessari breytingu hafi falist að erlendum rekstraraðilum hópbifreiða sé eingöngu heimilt að stunda farþegaflutninga hér á landi í 10 daga samfleytt í hverjum almanaksmánuði, en þetta sé í samræmi við ákvæði ír egluverki ESB. Sambærilegar takmarkanir hafi verið settar á í Danmörku en þar hafi einnig sú krafa verið gerð að ökumenn erlendra hópbifreiða njóti sömu kjara og danskir kollegar þeirra.

Þessi breyting hafi þó ekki skilað tilætluðum árangri.

„Þrátt fyrir lagabreytingu var tekið eftir því seinni part sumars 2021 að erlent ökutæki væri að stunda starfsemi óáreitt hér á landi. Samtök ferðaþjónustunnar vöktu athygli á þessu við eftirlitsaðila en fengu þau svör að vegna skorts á virku eftirliti og viðurlögum væru afleiðingar engar.“ 

Starfastuldur ekki úr sögunni

Eins hafi fulltrúar SAF átt samtöl við tollverði sem fylgist með innflutningi og akstursskrám þeirra sem eru með leyfi fyrir tímabundna farþegaflutninga. Þar hafi komið í ljós að þar skorti verkferla til að fylgja nýju löggjöfinni eftir.

Frá því að lögin hafi tekið gildi hafi SAF átt í stöðugum samskiptum við samgönguráðuneytið, lögreglu og tollyfirvöld, til að tryggja framkvæmd, sem og skrifað grein í vor í von um að stjórnvöld bregðist við.

„Sú var ekki raunin en þó komu fram skýrar ábendingar frá stjórnvöldum að ekki væri þörf á skýrarar regluverki og að eftirlits- og verkferlar væru til staðar. Það gaf innlendum rekstraraðilum von um að starfastuldur væri endanlega úr sögunni en annað hefur því miður komið á daginn.“ 

Stjórnvöld styðji félagslegt undirboð og starfastuld

Undanfarnar vikur hafi sami rekstraraðili hópbifreiðar, sem var hér síðasta sumar án allra leyfa, aftur verið að aka í trássi við gildandi lög. Hafi SAF ítrekað vakið athygli á þessu, sent myndir af ökutækinu ásamt dagsetningum á eftirlitsaðila lögreglunnar, en lögregla hafi þó lítið aðhafst að því er virðist.

„Aðgerðarleysið má túlka sem svo að stjórnvöld styðji félagsleg undirboð og starfastuld. Stéttarfélögin hafa ekkert gert til að verja þau störf sem hér eru að tapast og innlend fyrirtæki standa ráðþrota gagnvart þeirri sjóræningjastarfsemi sem hér þrífst.“ 

Á sama tíma skorti þó ekki á eftirlit með innlendri ferðaþjónustustarfsemi.

Gunnar og Baldur segja að nokkrir erlendir rekstraraðilar hafi lesið lögin betur en íslensk stjórnvöld og hætt allri starfsemi við farþegaflutninga nú í sumar. Erlendir ferðaheildsalar kaupi nú farþegaflutninga af innlendum rekstraraðilum í staðinn.

„Þessum jákvæðu áhrifum er hins vegar stefnt í hættu með aðgerðarleysi stjórnvalda og skortir á eftirfylgni við lögin. Það gerir það að verkum að nú horfa þessi fyrirtæki á þá ólöglegu starfsemi sem hér fær að þrífast og missa trúna á íslensku regluverki og umhverfi.“ 

Algerlega óásættanlegt

Ekki séu erlend hópferðafyrirtæki eina ólöglega starfsemin sem grafi undan íslenskum vinnumarkaði.

„Það hefur tíðkast að erlendir ökumenn starfi hér réttindalausir í atvinnuakstri án tilskilinna ökuréttinda til að aka hópbifreiðum eða fólksbifreiðum. Innlendir ökumenn eru hins vegar krafðir um slík ökuréttindi“ 

SAF og félagsmenn samtakanna hafi óskað eftir útskýringum stjórnvalda á þessu ósamræmi og skýringum á því hvað gildir hér á landi en svör hafi dregist. „Þetta er algerlega óásættanlegt og verður að laga strax.“

Gunnar og Baldur benda á að þrátt fyrir að rúmt ár sé liðið frá lagabreytingunni sé eftirlit með erlendum ferðaþjónustuaðilum enn í fullkomnu uppnámi. Tollyfirvöld og lögregla virðist ekki ná að stjórna þessu verkefni og grafi það undan trú á eftirlit og lagaumhverfi hér á landi.

Auki þetta enn fremur líkur á að erlendi fyrirtæki reyni að komast upp með „sjóræningjastarfsemi“ fremur en að fara eftir lögum og reglum og ýti undir að aukning verði á slíkri starfsemi á næstunni.

Þetta séu mikil vonbrigði og nú þurfi stjórnvöld, þá sérstaklega samgönguráðherra, að bretta upp ermar. SAF krefst þess að stjórnvöld stígi fram og skýri verkferla með skráningu og eftirliti gestaflutninga og greini frá því hvernig þau ætli að ná stjórn á þessu vandamáli.

„Að öðrum kosti verður ekki annað séð en að stjórnvöld láti sér félagsleg undirboð í greininni í léttu rúmi liggja.“ 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?