fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Frá Maraþonsvöllum til Taívan

Eyjan
Sunnudaginn 14. ágúst 2022 18:00

Til vinstri: Frá heimsókn Pelosi til Taívan, mynd/EPA - Til hægri: Aiskýlos

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gríska harmleikjaskáldið Aiskýlos (eða Æskílos, gr. Αἰσχύλος) er talinn vera fæddur árið 525 fyrir Krists burð. Hann barðist við Persa í sameinuðu herliði Grikkja við Salamis og á Maraþonsvöllum. Sagan segir að hann hafi hlotið lof fyrir hreysti sína í bardögum. Af því sem varðveist hefur af leikjum Aiskýlos má sjá hvílík áhrif það hafði á hann að verða vitni að því að örlítil þjóð í baráttu fyrir frelsi sínu hefði betur gegn heilu heimsveldi. Hann fylltist óbifandi trú á réttlæti og að mannraunir þær er Grikkir hefðu mátt reyna hefðu hreinsað og bætt sálir þeirra. 

Þríleikurinn Persarnir eftir Aiskýlos er nokkurs konar harmljóð Persa og það hefur þótt til marks um sálargöfgi harmleikjaskáldsins að hann skyldi hvorki fella hnjóðsyrði um Persa né hampa löndum sínum. Lokaþátturinn er áhrifaríkur þar sem Xerxes Persakonungur birtist áhorfendum á flóttanum í tættum skrúða og hefur upp hinn mikla harmsöng. 

Þessi hlutlæga sýn var óvanaleg enda litu Grikkir almennt niður á aðrar þjóðir sem þeir kölluðu barbara. Í kjölfar landvinninga Alexanders mikla nokkrum öldum síðar og útbreiðslu hellinismans skildist þeim þó að margur mætismaðurinn væri meðal Persa og að sama skapi margur þorparinn meðal Grikkja. Mannkostir yrðu ekki metnir á grundvelli þjóðernis.

Pelosi í Taívan og þýskir reiknimeistarar

Frá því í febrúar síðastliðnum höfum við fylgst með hetjulegri vörn Úkraínumanna gegn herjum heimsveldis. Líklega bjuggust flestir við skjótum landvinningum Rússa en annað kom á daginn — Úkraína verður ekki auðunnin frekar en Grikkland á dögum Aiskýloss.  Hinn frjálsi heimur hefur staðið sameinaður með stjórnvöldum í Kænugarði og refsiaðgerðir Vesturlanda gegn Rússlandi eiga sér fáar hliðstæður. Langt í austri hafa Taívanar eðli máls samkvæmt fylgst grannt með stríðsrekstri Rússa og ýmis líkindi má sjá með ásælni stjórnarinnar í Peking í eyríkið (lýðveldið Kína) við landakröfur Kremlverja á hendur Úkraínumönnum.

Heimsókn hinnar 82 ára gömlu Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, til eyríkisins hefur að vonum vakið mikla athygli en í grein í Washington Post á dögunum sagði hún að nú þegar kínverski kommúnistaflokkurinn herti tökin á öllu þjóðlífi bæri að líta á heimsóknina sem ótvíræða yfirlýsingu um að Bandaríkin stæðu með Taívan, lýðræðisríki sem og vinaþjóð (hún notar orðið partner í greininni, en ríkin eru ekki bandalagsríki svo sem kunnugt er) sem berðist fyrir tilverugrundvelli sínum og frelsi.

Í frétt þýska miðilsins Welt á dögunum var bent á að innrás Kínverja í Taívan gæti að miklu leyti bundið enda á viðskipti Vesturlanda og Kína. Vesturveldum væri við þær aðstæður vart stætt á öðru en beita Kínverja sambærilegum refsiaðgerðum og Rússa í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu. Slíkt viðskiptabann hefði eðli máls samkvæmt í för með sér afdrifaríkar afleiðingar fyrir heimsviðskiptin jafnt sem fjármálamarkaði.

Hvað Þjóðverja áhrærir þá er Kína þriðja mesta viðskiptaland þeirra á eftir Hollandi og Bandaríkjunum. Verslunarráð Bæjaralands (Vereinigung der Bayerischen Wirtschaft) og viðskiptarannsóknarstofnunin Ifo í München (ifo Institut für Wirtschaftsforschung) birtu nýverið niðurstöður rannsóknar á áhrifum þess fyrir evrópskt efnahagslíf ef að fullu yrði skorið á viðskiptatengsl við Kína. Niðurstaðan var sú að kostnaður Evrópusambandsríkjanna yrði nærri sexfaldur ætlaður kostnaður vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu; Brexit. Tjónið yrði með öðrum orðum óheyrilegt, svo mjög reiða Vesturlönd sig á viðskipti við Kínverska alþýðulýðveldið. Samt er rétt að hafa í hug að hin gríðarmikla hlutdeild Kínverja í heimsviðskiptum er tiltölulega ný af nálinni. Kínverska efnahagsundrið leit ekki dagsins ljós fyrr á tíunda áratug síðustu aldar.

Yrði skorið á viðskiptin við Kína yrði sér í lagi bifreiðaiðnaðurinn í Þýskalandi fyrir höggi, skýrsluhöfundar áætla samdráttinn þar 8,5%. Annar vélaiðnaður yrði sömuleiðis hart leikinn. En vitaskuld kæmi þetta líka niður á heimsversluninni í heild sinni sem myndi sigla inn í djúpt samdráttarskeið. 

Í skýrslunni er þó bent á að draga mætti stórkostlega úr neikvæðum afleiðingum viðskiptabanns með því að Evrópusambandið og Bandaríkin gerðu með sér fríverslunarsamning. Raunar yrði ávinningur þess að tengja viðskipti Norður-Atlantshafsríkjanna nánum böndum svo mikill að skýrsluhöfundar telja að kostnaður við að rjúfa viðskipti við Kína yrði þá ekki meiri en sem samsvaraði „einu Brexit“ eins og það er orðað. 

Hinn frjálsi heimur þarf að bindast nánari böndum

Í þýskum miðlum hefur líka undanfarið talsvert borið á því viðhorfi að Vesturlönd geti ekki haldið áfram viðskiptum við Kínverska alþýðulýðveldið eins og ekkert hafi í skorist meðan þeir nota útflutningshagnað sinn til að vígbúast gegn Vesturlöndum, halda uppi harðvítugri landvinningastefnu og vinna að því statt og stöðugt að gera sífellt fleiri vanþróuð lönd að leppríkjum sínum og hráefnanýlendum.

Á fréttamannafundi í vikunni sem leið áréttaði Olaf Scholz kanslari mikilvægi þess að þýsk fyrirtæki reiddu sig ekki um of á viðskipti við Kína í ljós þess hvernig aðfangakeðjur hefðu ítrekað rofnað undanfarin misseri, nú seinast vegna óeðlilega harkalegra aðgerða stjórnarherranna Peking gegn farsóttinni. Á sama fundi kom fram að engin áform væru uppi um opinbera heimsókn hans til Kínverska alþýðulýðveldisins.

Þá hefur Manfred Weber, leiðtogi kristilegra demókrata á Evrópuþinginu, bent á nauðsyn þess að vestræn ríki myndi með sér viðskiptablokk sem mótvægi við hagkerfi alræðisríkjanna. Líklega er besta vörnin gegn yfirgangi alræðisaflanna að hinn frjálsi heimur bindist nánari böndum. Forystumenn Evrópusambandsríkja vita sem er að mikil efnahagsleg velsæld er að stórum hlut að þakka þeim greiðu viðskiptum milli ríkjanna sem fjölþjóðasamvinna hefur tryggt. Ábatinn af því að ganga mun lengra í því efni yrði gríðarlegur eins og áðurnefndar rannsóknarniðustöður benda til.

Við fall Ráðstjórnarríkjanna og leppríkja þeirra í Evrópu virtist mörgum sem ógnin af alræðis- og harðstjórnaröflum væri horfin. Í staðinn væri hægt að einbeita sér að því að styrkja lýðræði á heimsvísu, sameina alþjóðakerfið og efla frjáls heimsviðskipti. Þetta reyndist tálsýn og á nýjan leik þarf að gefa sögunni gaum (allt aftur til fornaldar), sem og grundvallarþáttum vestrænnar stjórnskipunar, vestræns lýðræðis og hugsunar. Og sagan getur meðal annars kennt okkur að öðlast trú á sigur réttlætisins líkt og Aiskýlos komst að raun um forðum daga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?