Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, segir að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafi stutt Drífu Snædal til valda í ASÍ en síðan hafi leiðir skilið. Þetta kemur fram í aðsendri grein Björns í Morgunblaðinu í dag þar segir:
„Frá árinu 2012 var Drífa framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands (SGS). Efling er stærsta félagið innan SGS. Sólveig Anna hlýtur því að hafa stutt Drífu til forsetaembættisins. Skildi leiðir síðan með svikabrigslum. Ástandið versnaði stig af stigi.“
Björn rifjar upp orð Drífu í tilkynningu hennar er hún sagði sig frá embætti forseta ASÍ í vikunni:
„Átök innan ASÍ hafa … verið óbærileg og dregið úr vinnugleði og baráttuanda. Þegar við bætast ákvarðanir og áherslur einstakra stéttarfélaga, sem fara þvert gegn minni sannfæringu, er ljóst að mér er ekki til setunnar boðið. Ég treysti mér ekki til að vinna með fólki sem ég á ekki samleið með í baráttunni.“
Björn fer yfir átök Drífu við þrjá forystumenn verkalýðsfélaga, en það eru Sólveig Anna hjá Eflingu, Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness. Allir hafa þessir aðilar farið hörðum orðum um Drífu. Björn segir:
„Þegar forystumenn þriggja verkalýðsfélaga hafa flæmt forseta ASÍ á brott, verða fylkingarnar innan sambandsins að þétta raðirnar vegna ASÍ-þings í október. Þær verða einnig að ákveða hvernig staðið verði að komandi kjaraviðræðum. Við gerð kjarasamninga skiptir svonefnt samflot aðildarfélaga ASÍ sköpum þegar samið er í upphafi við Samtök atvinnulífsins (SA). Sjálfri sér samkvæm sætti Sólveig Anna sig ekki við samflot við gerð lífskjarasamninganna og háði sitt einkastríð.“
Björn segir að ábyrgð þríeykisins – Sólveigar, Ragnars og Vilhjálms – sé mikil þegar kemur að vandasömum kjaraviðræðum í haust. Spyr hann hvenær það liggi fyrir hvort stofnað verði til samflots verkalýðsfélaganna í væntanlegum viðræðum þeirra við Samtök atvinnulífsins. ASÍ sé forsetalaust og Björn spyr hver ætli að beita sér fyrir samfloti.