Óttar Guðmundsson geðlæknir gerir athugasemd við það að ráðherrar hafi mætt í opnunarpartí sjóbaðanna í Hvammsvík, sem eru í eigu Skúla Mogensen, fyrrverandi forstjóra WOW air. Óttar ræðir þetta í bakþönkum sínum í Fréttablaðinu.
„Skúli setti flugfélagið WOW glæsilega á hausinn í ársbyrjun 2019. Félagið var umvafið skuldum eins og skrattinn skömmunum. Atvinnulífið á Suðurnesjum var slegið í rot og ríkissjóður tapaði milljörðum. Orsakir gjaldþrotsins má rekja til ýmiss konar mistaka í stjórn og rekstri þessa lággjaldaflugfélags. Þar var aðallega við Skúla að sakast sem hagaði sér alltaf eins og sjálfmiðað barn í hlutverkaleik,“ segir Óttar og vandar athafnamanninum ekki kveðjurnar.
Óttar segir að fjölmiðlamenn hafi brugðist hart við er fréttist að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefði mætt í samkvæmi í Ásmundarsal á Þorláksmessu árið 2020 sem var á gráu svæði hvað varðaði þágildandi sóttvarnareglur í Covid-faraldrinum. Enginn fjölmiðill geri hins vegar athugasemd við þetta partí. Óttar spyr hvort það sé hlutverk ráðherra að hjálpa gjaldþrota auðmanni að auglýsa nýtt fyrirtæki sitt:
„Þessi saga þvældist þó ekkert fyrir Sjálfstæðisráðherrunum sem þar flatmöguðu í heitu sjávarkeri ásamt þotuliðinu og drukku eðalvín. Enginn blaðamaður spurði af hverju ábyrgðarmenn ríkissjóðs tækju þátt í slíkum fögnuði. Hvað varð um hugtök eins og „pólitísk ábyrgð“, „samstaða með kjósendum“ og „armslengd frá atvinnulífinu“? Er það virkilega hlutverk ráðherra að hjálpa gjaldþrota auðmanni að auglýsa nýtt fyrirtæki í ferðamannabransanum? Við skulum vona að böðin fari ekki sömu leið og vá-flugið sem brotlenti þrátt fyrir litagleði, snobb og flottheit. En þá verða Sjálfstæðisráðherrarnir væntanlega komnir í annað bað.“