Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og segir að svo virðist sem ekki verði komist lengra í að mæta athugasemdum Samkeppniseftirlitsins vegna sölunnar. Ekki komi til greina að lækka söluverðið frekar eða rýra verðmæti Mílu.
Samkvæmt kaupsamningi Símans og Ardian frá í október á síðasta ári var heildarvirði sölunnar um 78 milljarðar króna.
Íslenskum lífeyrissjóðum var boðið að eignast allt að 20% hlut í Mílu með beinni þátttöku eða í gegnum innlenda fjárfestingarsjóði.
Salan hefur ekki enn gengið í gegn en hún strandar á athugasemdum Samkeppniseftirlitsins.
ViðskiptaMogginn segist hafa heimildir fyrir að þolinmæði bæði Símans og Ardian sé á þrotum.