Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, varar við þeim áformum sem eru í vinnslu um lagningu borgarlínu og segir þau vera óráðsíu. Telur hann mun vænlegra að stefna að svokallaðri léttri borgarlínu sem kosti aðeins lítinn hluta af dýrri borgarlínu. Vilhjálmur reifar þetta í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þar segir:
„Enn er verið að ræða af fullri alvöru núverandi borgarlínutillögur sem munu aldrei ganga upp. Kostnaður við þá framkvæmd var áætlaður um 120 milljarðar króna, sem er óheyrilegt og gott dæmi um óráðsíu borgarstjórnarmeirihlutans í fjármálastjórn undanfarin kjörtímabil. Ýmsar borgir sem upphaflega ætluðu að byggja borgarlínu í háum gæðaflokki, sem stofnunin Institute for Transport and Development Policy viðurkennir sem hraðvagnakerfi BRT, hættu við það og byggðu þess í stað miklu ódýrari borgarlínu, stundum nefnd BRT-Lite, eða létt borgarlína. Sýnt hefur verið fram á, án þess að gerðar hafi verið athugasemdir, að kostnaður við létta borgarlínu sé rúmir 20 milljarðar króna.“
Vilhjálmur sakar borgarstjórnarmeirihlutann um óráðsíu og segir að almenn mótmæli borgaranna þurfi til að stöðva borgarlínuáformin. Hins vegar þurfi að gera almenningssamgöngur aðgengilegri og betri:
„Hvað þarf að gera til að koma í veg fyrir rándýra borgarlínu? Það þarf almenn mótmæli kjósenda, fyrst og fremst í Reykjavík, en þeir munu aðallega þurfa að greiða fyrir þann óheyrilega kostnað á næstu árum og áratugum sem núverandi áform hafa í för með sér. Það verður að útfæra þetta viðfangsefni á forsendum íbúa og atvinnurekenda í borginni með það fyrir augum að einn fararmáti vegi ekki að öðrum. Markmiðið á að vera að gera almenningssamgöngur að raunhæfum kosti fyrir fleiri með hagkvæmni og skilvirkni að leiðarljósi. Núverandi samgöngukerfi strætó er enn í ógöngum og þjónar ekki íbúum borgarinnar eins og nýlegt dæmi sannar þar sem vagnarnir önnuðu ekki eftirspurn íbúa vegna fjárhagsstöðu Strætó. Nær væri að taka strætókerfið til algjörrar endurskoðunar með hagsmuni almennings í huga. Fyrirhuguð lagning borgarlínu er vanhugsuð framkvæmd og fullkomin óráðsíða. Auk þess liggur ekki fyrir í dag með hvaða hætti þessi framkvæmd verði fjármögnuð.“
Í grein sinni fer Vilhjálmur jafnframt hörðum orðum um skuldastöðu borgarsjóðs, meinta óráðsíðu yfirvalda og fráleita lóðastefnu. Hann segir:
„Það er dapurt að sitja uppi með meirihluta i borgarstjórn sem hagar sér með fyrrgreindum hætti. Framsókn lofaði að breyta þessu. Afar ólíklegt að það gerist.“