Segja má að eldsumbrotin á Reykjanesskaga hafi kveikt duglega undir umræðunni um flugsamgöngur á landinu og þá sér í lagi framtíð Reykjavíkurflugvallar. Brýnt er að huga að varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll ef ske kynni að frekari eldgos loki fyrir bílaumferð þangað og þá hafa hamfarirnar sett spurningamerki við fyrirætlanir um flugvallarstæði í Hvassahrauni.
Umræðan er því hvöss og lifandi en einn þeirra sem hefur lagt orð í belg er samfélagsrýnirinn Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar. Hann skrifar sunnudagshugvekju þar sem hann fer yfir sína sýn á málið. Ljóst er að Grímur er ekki aðdáandi Reykjavíkurflugvallar né þeirra hugmynda að eldsumbrotin hafi sýnt fram á að efla þurfi flugvöllinn í höfuðborginni til þess að hann geti sinnt hlutverki varaflugvallar betur. „Þetta er alveg ótrúlega aumur málflutningur og til marks um hve óframsýnar og slappar ríkisstjórnir hafa starfað hér síðastliðna áratugi,“ skrifar Grímur.
Að hans mati hafi skammsýni og stefnuleysi ráðið för í málaflokknum um langt skeið. „Síðan fer að gjósa og þá vakna stjórnmálamenn sem virðast hreinlega algjörir meistarar í núvitund. Allt er viðbragð við því sem gerðist fyrir klukkutíma. Framtíðin er morgundagurinn eða í mesta lagi næsta vika,“ skrifar framkvæmdastjórinn og fer svo á flug.
„Höfum eftirfarandi á hreinu: Vatnsmýrin í Reykjavík getur aldrei tekið við því flugi sem fer um Keflavík á hverjum degi. Í fyrsta lagi vegna gríðarlegrar umferðar og í öðru lagi að þá er norður/suðurbrautin eina nothæfa brautin en hreint ekki allar flugvélar geta lent og tekið á loft á henni sökum hve stutt hún er. Fæstar þeirra véla sem fara um Keflavíkurflugvöll gætu þannig farið um Reykjavíkurflugvöll fullhlaðnar. Meðfylgjandi mynd sýnir farþegaflug um Keflavíkurflugvöll í síðustu viku. Þessa viku voru flugtök og lendingar farþegavéla að jafnaði 170 á dag. Til samanburðar er farþegaflug um Reykjavíkurflugvöll í kringum 20 til 32 flugtök og lendingar á dag. Það sjá það allir að flugumferð af þessari stærðargráðu á ekki heima í miðri höfuðborginni. Nógu slæmt er ruglið í kringum einkaflugvélar og kennsluflug,“ skrifar Grímur.
Hann segist vera búinn að fá nóg af „bulli“ í tengslum við flugsamgöngur hérlendis en að hans mati blasir við hvaða leið eigi að fara.
„Færum innanlandsflugið til Keflavíkur. Leggjum lest til Keflavíkur. Byggjum varaflugvöll sem getur leyst Keflavík af hólmi. Ef það er algjört möst að hafa hann nálægt höfuðborginni förum þá á Suðurlandið eða aðra staði sem henta. En fyrir alla muni ráðumst í verkið og hættum að þrugla,“ skrifar Grímur.
Eins og gefur að skilja hefur hugvekja hans hrundið af stað miklum umræðum þar sem málflutningur hans er annaðhvort lofaður eða gagnrýndur. Til að mynda er bent á að uppbygging lestar til Keflavíkur sé ekki hagkvæmur möguleiki, miðað við fjölda mögulegra viðskiptavina. Þá er bent á orð Harðar Guðmundssonar, eiganda og framkvæmdastjóra Flugfélagsins Ernis, sem hefur sagt að flutningur innanlandsflugsins til Keflavíkur yrði rothögg fyrir flugsamgöngur innanlands.
Svarar Grímur því að innanlandsflugið eigi þegar verulega undir högg að sækja. Hann bendir á að innanlandsflugið hafi dregist saman um 20% á árunum 2009 til 2019 (fyrir Covid) sem er nokkuð sláandi í ljósi þess að ferðamenn voru 500.000 árið 2009 en 2 milljónir 2019.
Þá leggur fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason orð í belg. „Skrítinn málflutningur og frekur. Við umberum völlinn þarna með sínu innannlandsflugi sem reyndar hefur dregist mikið saman – og sjúkrafluginu plús Landhelgisgæslunni. Hið mikla þyrluflug um völlinn, umferð einkaþota og snertilendingarnar og sportflugið – það er alveg fráleitt – hvað þá að ætla að fara lenda þotum inni í miðri borg. Svo ættu menn kannski aðeins að ranka við og átta sig á að líkurnar á að völlurinn á Miðnesheiði lokist vegna hraungosanna á Reykjanesskaga eru alveg sáralitlar,“ skrifar Egill.