Ólafur Arnarson, blaðamaður á Fréttablaðinu, segir íslensku krónuna vera fílinn í stofunni og löngu sé tímabært að Ísland gangi í Evrópusambandið. Þetta kemur fram í leiðara Fréttablaðsins í dag. „Líkast til er það einhver landlæg þrjóska sem veldur því að íslenskir ráðamenn berja hausnum við steininn og vilja standa utan stærsta og áhrifamesta lýðræðisbandalags í heimi þar sem fyrir eru vina- og frændþjóðir okkar. Í gegnum EES höfum við skuldbundið okkur til að lögleiða mestallt regluverk ESB, en þar sem við erum ekki aðilar að ESB höfum við engin áhrif á stefnumótun sambandsins,“ segir Ólafur.
Hann bendir síðan á kostina við aðild: „Með fullri aðild að ESB fengjum við Íslendingar ekki einungis sæti við borðið þar sem stefna sambandsins er mörkuð og ákvarðanir teknar. Við fengjum einnig evruna, gjaldmiðil ESB.“
Ólafur fer síðan yfir nokkra ókosti þess að halda í krónuna sem gjaldmiðil. Innflutningsfyrirtæki þurfi að kaupa gjaldeyri af bönkunum til að kaupa inn vörur og greiða bönkunum þóknun. Þetta leggist á vöruverðið og neytendur borgi brúsann. Hann segir ennfremur:
„Íslensk útflutningsfyrirtæki þurfa að selja bönkunum gjaldeyri fyrir krónur til að geta borgað laun og aðföng hér á landi. Fyrir þetta borga þau bönkunum þóknun. Þetta dregur úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á erlendum mörkuðum.“
Ólafur bendir á að íslenska krónan sé minnsti gjaldmiðill í heimi og augljóst er að hann telur þennan gjaldmiðil standa samfélaginu helst fyrir þrifum í efnahagsmálum:
„Ísland er gjöfult og gott land. Akkilesarhæll Íslands er krónan, minnsti gjaldmiðill í heimi. Íslenska krónan skaðar samkeppnishæfni Íslands gagnvart umheiminum.“