Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins, sem ritstjórinn Davíð Oddsson skrifar líklega, er fjölbreytt að efni í dag og komið víða við. En stuttur kafli úr pistlinum hefur farið nokkuð fyrir brjóstið á netverjum á Twitter. Er þar farið nokkrum orðum um þungunarrof annars vegar og réttindi transfólks hins vegar:
„Það hefur verið gert í sérkennilegri málum en þetta, eins og þegar karlmönnum er gert að svara því gagnvart opinberum aðilum hvort þeir hafa einhvern tíma orðið ófrískir, og þá í merkingunni óléttir. Neiti þeir að svara jafn „sjálfsagðri spurningu“ er þeim jafnvel gert að hverfa úr sínu starfi og þar fram eftir götunum. Sama gildir ef stór, risavaxinn, þrælskeggjaður karlribbaldi fær það hugskot að hann hafi þá tilfinningu að hann sé í þeirri andrá kona,og geti ekki undan því vikist, þá má hann snara sér inn á það sem áður hét kvennaklósett. Þegar hann hefur náð þeim árangri þá er ekkert að því heldur að hann verði sami karldurgurinn og jafnan endranær uns kallið kemur. Á Íslandi er svo komið, að stjórnmálakonur styðja það opinberlega að þótt fóstur í móðurkviði sé orðið allt að níu mánaða og varla mikið meira en dagur í fæðingu þá megi konan ákveða að eyða fóstrinu!
Fyrir fáeinum árum leið þessu ágæta fólki ekki nægilega vel með afstöðu sína, svo það fékk því breytt að „fóstrinu“ væri ekki eytt, heldur yrði framkallað „þungunarrof“ sem virðist ekkert koma fóstrinu við. En þegar kona missir fóstur sitt, og henni og öllum sem að því koma er sárlega brugðið og bugað af sorg þá er ekkert annað heiti til en fóstur, nema þá að tala um barn í vonum. Þá verður ekkert þungunarrof. Þá verður mikill missir. Fóstrið. En það furðulega er að engin raunveruleg umræða hefur farið fram um þessi stórmál.“
Meðal þeirra sem tjá sig um Reykjavíkurbréfið er Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, en hann segir á Twitter:
„Svona sér ritstjóri Morgunblaðsins fyrir sér transfólk og hér opinberar hann skoðun sína á því. Eftir fylgir svo langt röfl um þungunarrof og söknuður eftir orðinu fóstureyðing. Allt er að venju tengt við Joe, og Hunter, Biden með krókaleiðum. RVK-bréfin verða seint yndislestur.“
Svona sér ritstjóri Morgunblaðsins fyrir sér transfólk og hér opinberar hann skoðun sína á því. Eftir fylgir svo langt röfl um þungunarrof og söknuður eftir orðinu fóstureyðing. Allt er að venju tengt við Joe, og Hunter, Biden með krókaleiðum. RVK-bréfin verða seint yndislestur. pic.twitter.com/VfbHyUZV1I
— Þórður Snær Júlíusson (@thordursnaer) July 30, 2022