fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Ólympíumótið í skák hafið í Chennai – Efnilegasti skákmaður Íslands missir af mótinu vegna Covid

Ritstjórn DV
Föstudaginn 29. júlí 2022 12:35

Frá tilkomumikilli opnunarhátíð Ólympíumótsins í Chennai

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ingvar Þór Jóhannesson, liðsstjóri íslenska kvennalandsliðsins í skák, mun fjalla um Ólympíumótið í skák á síðum DV  sem fram fer dagana 29.júlí – 9. ágúst. Fyrsta umferð mótsins hófst núna í morgun kl.09.30 á íslenskum tíma en hægt er að fylgjast með beinum útsendingum frá mótinu á skák.is.

Í dag hefst Ólympíuskákmótið svokallaða sem fram fer að þessu sinni í Chennai á Indlandi. Ólympíumótið eins og það er yfirleitt kallað er eitt stærsta skákmót sem fram fer í heiminum og fátt vekur meiri athygli í skákheiminum ef undan eru skilin heimsmeistaraeinvígi. Ísland sendir lið til keppni venju samkvæmt og eigum við fulltrúa í opnum flokki og kvennaflokki.  

Þetta verður í 44. skiptið sem mótið fer fram og ljóst er að um metþátttöku en alls eru 186 þjóðir og landsvæði skráð til leiks og því má finna ýmis lönd sem ekki eru beint þekkt fyrir afrek á íþróttasviðinu.  Allt í allt eru keppendur og starfmenn mótsins vel á þriðja þúsund!

Tefldar eru 11 umferðir á mótinu og í hverri umferð (ein á dag) mætast fjórir skákmenn frá hverju landi í styrkleikaröð alls fjórar skákir í hvert skipti. Viðureign getur því endað mest með 4-0 sigri en 2 stig eru veitt fyrir sigur í viðureign, 1 stig ef viðureignin endar með 2-2 jafntefli og 0 stig ef viðureignin tapast.

Babb í bátinn

Ólympíumótið hefur ekki farið fram síðan árið 2018 en því var frestað árið 2020 vegna heimsfaraldursins en mótið átti að fara fram í Moskvu í Rússlandi.  Ákveðinn skellur þar sem mótið hefur farið sleitulaust fram á tveggja ára fresti síðan árið 1950. Reyndar voru haldin mót á netinu í covid-faraldrinum en enginn lítur þau mót sömu augum og alvöru ólympíumót.

Upphaflega átti mótið 2022 að fara fram í Hvíta-Rússlandi en sökum fjárhagsvandræða og mótmæli við framferði stjórnvalda þar í landi tóku Rússar við keflinu. Segja má að þar hafi FIDE – alþjóða skáksambandið – vaðið úr öskunni í eldinn í ljósi innrásarinnar í Úkraínu. Innrásin hófst 24. febrúar og 27. febrúar tilkynnti FIDE að mótið yrði ekki haldið í Rússlandi. Þessi ákvörðun var í takt við aðrar á þessum tíma og til að mynda var úrslitaleikur meistaradeildarinnar í fótbolta færður frá St. Pétursborg yfir til Parísar.

Ingvar Þór Jóhannesson

 

Indland til bjargar

FIDE þurfti nú að auglýsa eftir keppnisstað fyrir mótið og um miðjan mars var tilkynnt að Indverjar hefðu boðið í mótið og það yrði haldið þar í landi. Segja má að skákin sé þar að leita í rætur sínar en heimildir benda til að skák hafi átt uppruna sinn á Indlandi fyrir meira en 1.500 árum. Mótsstaðurinn verður í Chennai sem hefur sterka skáktenginu enda fæddist þar þekktasti skákmaður Indlands, 15. heimsmeistarinn Viswanathan Anand. Chennai var einnig vettvangur einvígis Anand við Magnus Carlsen þar sem Norðmaðurinn lagði Tígrisdýrið frá Madras svokallaða. Carlsen tilkynnti á dögunum að hann hyggist ekki verja titil sinn árið 2023 en hann hefur haldið honum sleitulaust síðan hann hrifsaði titilinn í einvígínu í Chennai. Það er því athyglisvert að fyrsta kappskák Carlsen eftir að hann afsalar sér titlinum verðum á sama stað og hann náði honum fyrst!

Viswanathan Anand, fyrrverandi heimsmeistari, er frá Chennai og er í guðatölu ytra

 

Mikil uppsveifla er að eiga sér stað í skáklistinni og skákáhuga á Indlandi og þeir virðist unga út stórmeisturum nánast mánaðarlega síðustu misseri. Heimamenn eru mjög spenntir fyrir því að halda ólympíuskákmót og hafa heitið því að tjalda öllu til. Það á eftir að koma í ljós hvernig það gengur en Indverjar sýndu snemma hversu spenntir þeir voru að halda mótið þegar þeir tendruðu ólympíueld í júni. Slíkt hefur aldrei verið gert fyrir ólympíuskákmót en er þekkt á ólympíuleikum. Ólympiueldurinn átti að koma við í 75 borgum á Indlandi fram að móti og að sjálfsögðu tók Anand sjálfur fyrsta „sprettinn“ með eldinn.

Chennai borg hefur verið merkt og máluð í bak og fyrir og ætti ekki að fara framhjá neinum að ólympíuskákmótið verður haldið þar næstu tvær vikur.

Covid á lokametrunum

Ferðalag íslenska liðsins til Indlands byrjaði ekki vel þegar efnilegast skákmaður landsins, alþjóðlegi meistarinn Vignir Vatnar Stefánsson, greindist með covid tveimur dögum fyrir brottför. Vignir, sem er 19 ára gamall, missti því af þátttöku í sínu fyrsta Ólympíuskákmóti sem var gríðarlega svekkjandi fyrir kappann sem og alla íslenska skákáhugamenn enda stefnir hraðbyri á að verða næsti stórmeistari Íslendinga og miklar væntingar gerðar til hans ytra.

Nú voru góð ráð dýr þar sem töluverð skrifinnska er fólgin í því að komast til Indlands. Til að komast á mótið þarf boðsbréf frá mótshaldara til að geta fengið vegabréfsáritun og til að fá vegabréfsáritun þarf að setjast niður í góðar 30-45 mínútur til að svara allskonar persónulegum spurningum. Flestar snúast þessar spurningar um það að gæta þess að enginn sem er að koma sé frá eða hafi komið til Pakistan!  Þurfti t.a.m. að rita niður nöfn og heimilsföng foreldra, lista yfir lönd sem heimsótt hafa verið síðustu 10 ár eða svo en líklegast hefði mátt skipta þessu út með einni spurningu um landið sem Indverjar virðast ekkert sérstaklega hrifnir af.

Eina lausnin sem í boði var með þessum fyrirvara var sú að liðsstjóri íslenska liðsins í opnum flokki, Margeir Pétursson, myndi einnig taka að sér að vera varamaður í liðinu. Margeir er hluti af gullkynslóð íslenskrar skáklistar, hinni svokölluðu fjórmenningaklíku. Margeir er löngu hættur atvinnutaflmennsku enda hefur hann getið sér gott orð í bankabransanum og á meðal annars og rekur banka í Úkraínu. Árið 2016 kom Margeir landsliði Íslands í knattspyrnu óvænt til aðstoðar.

Íslenska liðið er skipað eftirtöldum í opnum flokki (stig í sviga):

  1. Hjörvar Steinn Grétarsson (2563)
  2. Hannes Hlífar Stefánsson (2541)
  3. Guðmundur Kjartansson (2448)
  4. Helgi Áss Grétarsson (2472)
  5. Margeir Pétursson (2450)

Ísland er númer 43. Í styrkleikaröðinni af 188 sveitum sem skráðar eru til leiks.  Bandaríkjamenn eru lang líklegastir í opnum flokki en þeir státa af ofursveit með meðalstig yfir 2770 elóstig. Heimamenn, Indverjar, munu reyna að veita þeim keppni og Norðmenn með Magnus Carlsen í fararbroddi eru þriðja stigahæsta liðið.

Íslenska liðið í kvennaflokki er skipað eftirtöldum (stig í sviga)

  1. Lenka Ptacnikova (2066)
  2. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir (1976)
  3. Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir (1934)
  4. Tinna Kristín Finnbogadóttir (1828)
  5. Lisseth Acevedo Mendez (1784)

 

Íslenska liðið er númer 61 í styrleikaröðinni en 162 lið hefja leik þar. Indverjar eru stigahæstir en pistlahöfundur telur Úkraínukonur líklegastar á mótinu. Sá er ritar þessar línur, Ingvar Þór Jóhannesson, er liðsstjóri kvennaliðsins. 

Sjarmi ólympíumóta

Ólympíumót eru hátt skrifuð hjá flestum skákmönnum og skákáhugamönnum. Flestir vilja komast á þessi mót og gaman er að fylgjast með þeim. Grunngildi FIDE koma líka skýrt fram á ólympíumótum enda einkunnarorð FIDE: Gens Una Sumus – Við erum ein fjölskylda.

Kristallast það einna best í því að á ólympíuskákmóti getur þú séð heimsmeistarann sjálfan Magnus Carlsen tefla. Þú getur líka séð skákmenn sem eru allt að því byrjendur enda eru sum lönd styttra komin og eiga erfiðara með að tefla fram liði. 

Á síðasta ólympíuskákmóti árið 2018 í Georgíu tefldist eftirfarandi skák í viðureign Palau og Gambíu. 1.e4 c6 2. Bc4 b6 3. Df3 g6?? 4.Dxf7+ og mát!


Flestir sem kunna mannganginn kannast við að hafa reynt slíka brellu eða lent í henni. Þetta kallast á skákmáli Heimaskítsmát og er algengt í viðureignum byrjenda.

Undirritaður mun á næstunni reyna að greina eilítið frá stemmningunni, baráttunni og ýmsu sem gengur á á ólympíuskákmóti.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið
EyjanFastir pennar
15.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Drög að ferðamannamengun

Sigmundur Ernir skrifar: Drög að ferðamannamengun
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar