Birkir Leósson, endurskoðand, hyggst kæra Þórólf Matthíasson hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, til siðanefndar skólans. Ástæðan er ritdeila þeirra á milli sem átt hefur sér stað á síðum Fréttablaðsins undanfarnar vikur. Þetta kemur fram í grein Birkis í Fréttablaðinu í dag.
Í greininni segir Birkir að hann hafi ákveðið að kæra Þórólf til siðanefndarinnar þar sem það sé „ólíðandi að prófessor á háum launum af skattfé saki aðra opinberlega að tilefnislausu um fjársvik, önnur lögbrot, vanhæfni, geri mönnum upp skoðanir, hafi rangt eftir mönnum, haldi ítrekað fram ósannindum o.s.frv.“ og segir Birkir að með slíkri framgöngu skaði Þórólfur orðspor háskólans.
Kaup Síldarvinnslunnar á útgerðarfyrirtækinu Vísi fyrr á dögunum vöktu mikið umtal. Í kjölfar þeirra geystist Þórólfur fram á ritvöllinn og skrifaði grein sem birtist þann 15. júlí í Fréttablaðinu. Þar varpar hann fram þeirri skoðun sinni að eignir Vísis hafi verið gróflega vanmetnar í fyrri efnahagsreikningum og að endurskoðendur fyrirtækisins hafi staðfest ársreikninga sem væru hreinn skáldskapur.
Benti Þórólfur á að þrátt fyrir að eigið fé Vísis hafi numið 6,8 milljörðum króna í lok árs 2020 samkvæmt efnahagsreikningi hafi það nú verið selt á ríflega 20 milljarða sem þýðir að eigið féið hafi verið vametið um rúma 13 milljarða. Leiddi hann jafnframt líkum að því að skekkjan hafi verið til komin vegna afsláttar af veiðigjöldum sem fyrirtækið fékk.
Birkir svaraði Þórólfi í aðsendri grein í Fréttablaðið fyrir rúmri viku sem kallaði á annað harðort svar frá hagfræðiprófessornum þar sem hann ýjaði að því Birkir hefði gerst sekur um lögbrot með því að staðfest rangan ársreikning.
Við þessi svigurmæli getur Birkir ekki unað og lýsir því yfir í áðurnefndri grein sem birtist í Fréttablaði dagsins að hann hyggist leggja fram kæru til siðanefndar.
Segir Birkir að Þórólfur hafi mistúlkað orð sín og ítrekað haldið fram ósannindum í grein sinni. Að hans sögn séu endurskoðandi ekki óskeikulir frekar en aðrir menn, ekki einu sinni hagfræðiprófessorar, og að auðvelt sé að finna dæmi um það.
Hinsvegar sé honum ekki kunnugt um að að endurskoðandi íslensks sjávarútvegsfélags hafi verið dæmdur fyrir misgjörðir við endurskoðun þess né að ársreikningaskrá hafi gert athugasemdir við meðferð á aflaheimildum í efnahagsreikningum.