Ein mesta gæfa Íslendinga síðustu öld er að hér í þessu aldagamla sveitasamfélagi skyldi hafa byggst borg með fjölbreyttu atvinnulífi, þar sem fólk með hvers kyns sérþekkingu getur skapað sér gott lífsviðurværi. Fyrir vikið eiga Íslendingar sem mennta sig erlendis jafnan kost á að koma aftur heim og starfa við sitt fag. Þetta er síður en svo sjálfsagt í jafnfámennu þjóðfélagi. Til marks um velgengni borgarinnar á suðvesturhorninu eru íbúar á svæðinu milli Borgarfjarðar og Þjórsár orðnir 302.883 talsins eða sem nemur rétt rúmlega áttatíu af hundraði heildarmannfjöldans.
Pólitík síðustu öldina eða svo hefur aftur á móti — vegna misvægis atkvæða — að miklu leyti snúist um að stöðva þessa borgarmyndun og stjórnmálin þannig orðið dragbítur á eðlilega nútímavæðingu samfélagsins. Þingmenn flestallra flokka hafa keppst við að beina fjármunum sem mest frá suðvesturhorninu, meðal annars með vegaframkvæmdum sem fáum gagnast, þar með talið greftri ganga gegnum afskekkt fjöll á sama tíma og brýnustu samgöngumannvirki á suðvesturhorninu hafa mátt sitja á hakanum.
Óheyrilegar fjárhæðir
Nú eru enn ein afdalagöngin í bígerð, jarðgöng undir Fjarðarheiði, sem sagt er að muni kosta 47 milljarða króna. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hefur boðað að göngin verði fjármögnuð með nýjum skatti á notendur allra annarra jarðganga landsins (og þá væntanlega umfram allt Hvalfjarðarganga). Útþennsla hins opinbera hafa verið einkunnarorð núverandi ríkisstjórnar og í stíl við það stendur til að stofna sérstaka ríkisstofnun utan um innheimtu hins nýja þjóðvegaskatts ráðherrans.
Reynslan sýnir að framkvæmdir við jarðgöng fara ævinlega langt fram úr kostnaðaráætlunum. Skemmst er að minnast Vaðlaheiðarganga sem reyndust tvöfallt dýrari en gert var ráð fyrir í upphafi. Við skulum því alveg taka með í reikninginn að göngin undir Fjarðarheiði kunni á endanum að kosta allt að hundrað milljarða króna. En hvort sem um er að ræða fimmtíu eða hundrað milljarða þá eru þetta galnar fjárhæðir fyrir framkvæmd sem gagnast jafnfáum og raun ber vitni en 669 eru skráðir með lögheimili á Seyðisfirði (fyrir réttri öld voru íbúar þar 913 talsins og kaupstaðurinn meðal þeirra stærstu á landinu).
Ráðherrann sagði í viðtali á dögunum að samfélagslegur ábati af greftrinum væri „gífurlegur“ en tilgangurinn mun vera umfram allt að „gera samgöngur á Austurlandi áreiðanlegar og öruggar og rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar“ eins og það er orðað. Í frétt Kristjáns Más Unnarssonar á Stöð 2 á dögunum var bent á að Hellisheiði milli Reykjavíkur og Hveragerðis var mun oftar lokuð síðastliðinn vetur en Fjarðarheiði. Samfélagslegur ábati af göngum undir Hellisheiði yrði því margfaldur á við Fjarðarheiðargöng svo dæmi sé tekið. Í frétt Stöðvar 2 var þess ennfremur getið að göng undir Fjarðarheiði væru svo fjárfrek að öll framlög á fimmtán ára jarðgangaáætlun ásamt gjaldtöku af öðrum göngum dygðu ekki til að greiða kostnaðinn. Þá yrði ekki rými til að grafa önnur göng fyrr en um 2040.
Engin ástæða til að amast við byggðaþróun
Ólafur Arnarson hagfræðingur benti á það í pistli í Fréttablaðinu í fyrradag að Hvalfjarðargöngin væru einhver best heppnaða samgöngumannvirkjagerð sem ráðist hefði verið í hér á landi. Hún var í höndum einkaaðila en ríkisábyrgð var þó veitt fyrir litlum hluta fjármögnunar og svo var ríkið einn hluthafa í Speli ehf. sem annaðist framkvæmdina. Hið opinbera stóð ekki sjálft fyrir greftri Hvalfjarðarganganna þó svo að þau hafi á endanum verið færð ríkinu að gjöf. Nú hyggst innviðaráðherrann og formaður Framsóknarflokksins hafa þetta frábæra samgöngumannvirki að féþúfu fyrir göng í gegnum afskekkt fjall hinum megin á landinu (sem raunar vill svo til að er staðsett í höfuðvígi Framsóknarflokksins).
Seyðisfjörður er nú hluti nýs sveitarfélags á Austfjörðum sem nefnist Múlaþing. Einn sveitarstjórnarfulltrúa þar, Hildur Þórisdóttir, sagði í grein á Vísi í vikunni sem leið að menn yrðu „að þora að hugsa stórt og landið sem eina heild sem þarf að halda í byggð“. Hér er á ferðinni algeng meinloka. Það getur ekki markmið út af fyrir sig að halda landinu öllu í byggð. Ef við hverfum aftur um öld — til velmektarára Seyðisfjarðar — þá var mun stærri hluti landsins í byggð um þær mundir en nú og mjög víða var enn stundaður sjálfsþurftarbúskapur. Breyttir atvinnuhættir, tæknivæðing og velmegun henni samfara gerðu fólki kleift að skapa sér og afkomendum sínum miklu betra lífsviðurværi en forfeður þeirra bjuggu við. Og þessi nýju tækifæri var sér í lagi að finna í borginni á suðvesturhorninu. Það er orðið löngu tímabært að landsmenn horfist í augu við þá staðreynd að Ísland er borgríki og viðurkenni um leið hversu mikil blessun það er.
Við blasir að stefna algjörrar ríkisforsjár í samgöngumálum hefur beðið skipbrot — sér í lagi vegna ranglátrar kjördæmaskipunar. Meginmáli skiptir að stærstu framkvæmdir í vegamálum gagnist öllum þorra þjóðarinnar. Jarðgangagerð úti um landið verður heldur ekki til að snúa við byggðaþróuninni og raunar engin ástæða til að amast við því að borgarsvæðið á suðvesturhorninu fái vaxið áfram um ókomna tíð.