Segir í upphafi að hrafnar Viðskiptablaðsins, Huginn og Muninn, hafi í síðustu viku talið sig sjá merki um að Dagur sé farinn að ókyrrast en þá skrifuðu þeir: „Það dró til tíðinda í gær þegar Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, blandaði sér í þjóðmálaumræðuna og tjáði sig um kaup Síldarvinnslunnar á útgerðarfélaginu Vísi í Grindavík. Málflutningur Dags um kvótakerfið og meint líkindi við atriði í þáttaröðinni Verbúðinni á RÚV hafa eflaust fallið vel í kramið hjá flokkssystkinum í Samfylkingunni.“
Staksteinar segja að það eigi ekki að koma á óvart að Dagur sé farinn að ókyrrast, hann hafi tapað hverjum kosningunum á fætur öðrum. Hann viti að hann eigi ekki erindi í fleiri borgarstjórnarkosningar þótt honum hafi tekist að tryggja sér borgarstjórastólinn í nokkra mánuði til viðbótar vegna byrjendamistaka viðsemjenda sinna um meirihlutasamtarfið.
Huginn og Muninn sögðu í síðustu viku að Dagur hafi yfirleitt ekki blandað sér í landsmálaumræðuna á sviðum sem tengjast borgarmálunum ekki beint. Nú sé hann væntanlega að máta sig við formannsframboð í Samfylkingunni í haust og baráttu við Kristrúnu Frostadóttur um formannsembættið. Ef hann verði kjörinn formaður megi reikna með að hann muni hella sér af fullum krafti í landsmálin eftir að hann lætur af störfum sem borgarstjóri í árslok 2023.
„Dagur kannast ekki sjálfur við að hafa hugleitt formannsframboð en popúlískt útspil hans segir allt sem segja þarf. Og vissulega er verk að vinna á landsvísu. Þar hefur Samfylkingin ekki goldið jafn mikið og samfellt afhroð og í Reykjavík þannig að Dags er beðið með eftirvæntingu,“ segja Staksteinar síðan að lokum.