Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. „Það er orkukrísa í kringum okkur og við, sem getum orðið aflögufær, verðum að spyrja okkur hver ábyrgð okkar er í orkuskortinum sem blasir hvarvetna við,“ sagði Guðmundur Þorbjörnsson, sérfræðingur hjá verkfræðistofunni Eflu, um málið.
Hann sagði vaxandi áhuga meðal útlendinga á orkukaupum hér á landi og rigni fyrirspurnum inn.
Nú eru um 2,5 gígavött framleidd í íslenska orkukerfinu. Álíka mikið þarf til orkuskipta hér á landi að mati Guðmundar og miðar hann þá við raunhæfar forsendur og eðlilega framþróun samfélagsins. „En jafnvel eftir það getum við bætt við verulegri orkuframleiðslu til útflutnings og mætti þar miða við önnur 5 gígavött,“ sagði hann og bætti við að vindorka sé líklega langstærsta tækifæri okkar til að framleiða græna orku með skynsamlegum hætti á landi og hafi úti.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði það vera forgangsmál að sinna orkuþörfum þjóðarinnar en tók einnig fram að mörgum spurningum sé ósvarað, sérstaklega hvað varðar rafeldsneyti. „Það má vera að við þurfum að skipta við aðra á eldsneyti í framtíðinni, að því gefnu að við framleiðum ekki allar tegundir. En aðalatriðið er að við erum að forgangsraða í orku fyrir Ísland og það er mjög stórt verkefni,“ sagði hann.