Færeyska landstjórnin hefur ákveðið að setja takmarkanir á fjölda höfrunga sem drepa má í árlegum veiðum sem framundan eru. Kvótinn verður 500 höfrungar í ár en í fyrra voru rúmlega 1.400 höfrungar drepnir sem að vakti mikla reiði og gagnrýni.
Löng hefð er fyrir veiðunum sem Færeyingar segja veiðar s vera sjálfbærar og hluta af menningu þeirra. Að mestu eru veiddir grindhvalir en höfrungarnir sem veiddir voru í fyrra voru af tegundinni leiftur (e. white-sided dolphin).
Færeyingar voru fljótir að viðurkenna að mistök hafi ollið því að svo margir höfrungar voru drepnir. Til samanburðar eru yfirleitt 800-900 grindhvalir drepnir árlega og því var höfrungadrápið í fyrra yfirgengilegt. Þrátt fyrir það voru engin lög brotin og veiðin var samþykkt af yfirvöldum. Í ljósi viðbragðanna í fyrra var ákveðið að endurskoða framkvæmd veiðanna og var niðurstaðan sú, eins og áður segir, að draga verulega úr fjöldanum sem veiða má
Dýraverndunarsinnar hafa lengi haft horn í síðu þessarar færeysku hefðar og telja það vera grimmdarlegt og óþarfi. Óhætt er að segja að veiðiaðferðin sé nokkuð hrottaleg í augum þeirra sem hafa ekki alist upp við það. Grindhvölunum er smalað inn í vík og síðan er þeim slátrað í fjöruborðinu svo að hafið litast blóðrautt.
Reiðialda skall á Færeyingum í erlendum fjölmiðlumog meðal annars barst undirskriftarlisti til færeysku landsstjórnarinnar þar sem 1,3 milljónir manna lýstu yfir vanþóknun sinni.