Elías Elíasson verkfræðingur telur að áform um borgarlínu byggi á óskhyggju og draumórum. Mun vænlegra hefði verið að byggja áfram á gamla strætisvagnaleiðakerfinu við hönnun almenningssamgangna og efla það. Þetta kemur fram í aðsendri grein Elíasar í Morgunblaðinu í dag.
Elías segir að í skýrslunni „Höfuðborgarsvæðið 2040“ þar sem gerð er grein fyrir áformum um borgarlínu sé byggt á þeim félagslega sparnaði sem hlýst af því þegar stór hluti íbúa hættir að nota einkabíl og notar í staðinn almenningssamgöngur. Síðan segir Elías:
„Auðvitað kemur fram félagslegur sparnaður þegar ábati fólks af að hætta að reka bíla er skoðaður og engin tilraun gerð til að sýna fram á að bættar almenningssamgöngur geti valdið slíkri hugarfarsbreytingu. Eigin bíll er sjálfstæður draumur sem fólk lætur rætast þegar það hefur efni til. Aðgengi að almenningssamgöngum hefur þar takmörkuð áhrif, sérstaklega fjarri hinu öfluga lestarkerfi Evrópu en ekki er kostur á að koma upp hliðstæðu þess hér sökum fámennis. Samt er fullyrt í skýrslunni að ábatinn stafi af bættum almenningssamgöngum og styttri vegalengdum í þéttari byggð.“
Áform um borgarlínu haldast í hendur við þéttingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu en Elías telur að þétting byggðar eigi stóran þátt í þeirri hækkun á fasteignamarkaði sem orðið hefur. Síðan segir Elías:
„Að halda áfram með gamla strætókerfið hefði því verið hin rétta niðurstaða þessarar sviðsmyndagreiningar og endurbætur á leiðaneti þá verið eðlilegt framhald.“
Segir Elías að undirbúningur borgarlínu sé ekki byggður á raunhæfum forsendum heldur á óskhyggju um fækkun bíla. Hann vill fremur að ráðist sé í gerð mislægra gatnamóta:
„Nauðsyn þess að greiða fyrir umferð með mislægum gatnamótum er orðin auðsæ. Andstæðingar þeirra hafa því snúið við blaðinu að nokkru og vilja nú grafa þau niður og tengja saman með löngum niðurgröfnum steypustokkum og lok ofan á þar sem vera skal annar vegur fyrir borgarlínu og umferð um hverfið. Þetta er dýr vegagerð og ókleift að tengja við þvergötur svo vel fari. Slíkir stokkar bæta umferð takmarkað. Þessum áformum telur SFA rétt að fresta en leggja beri áherslu á að hafa þjóðvegi í þéttbýli án umferðarljósa og hanna mislæg gatnamót þannig að minni sjónmengun sé að þeim jafnframt sem gætt sé að greiðri umferð gangandi og hjólandi. Vel hönnuð mislæg gatnamót geta þannig orðið virkum ferðamátum greiðari og öruggari en mörg ljósastýrð gatnamót eru nú.“