Nafnabreytingatillagan sem liggur fyrir komandi aðalfundi Festis hefur vakið mikla athygli en tillagan er á þá leið að nafni fyrirtækisins verði breytt í Sundrung. Sá sem stendur á bak við tillöguna er séra Pétur Þorsteinsson í Óháða söfnuðinum sem að eigin sögn er einn allra smæsti hluthafi fyrirtækisins. Þetta kemur fram í viðtali Morgunblaðsins við séra Pétur.
Í viðtalinu kemur fram að séra Pétur hafi lagt tillögunina fram af yfirvegun og með það í huga að vekja athygli á aðferðinni við uppsögn Eggerts Þórs Kristóferssonar, forstjóra félagsins.
„En ég legg ekkert endilega til að þetta verði samþykkt,“ segir hann.
Séra Pétur segir mikilvægt að komandi kynslóðir geti séð síðar meir að hann hafi verið ósáttur með þessa ákvörðun og að útfæra hafi mátt málin á annan veg. Spurður hvort hann sé almennt ósáttur með að skipt sé um forstjóra félagsins segir hann svo ekki vera.
„Það er í lagi að skipta um hest í miðri á eða skipta um liðstjóra, en að farið yrði að þessu öðruvísi og sýna meiri kærleika í því hvernig þetta kæmi til heldur en að vera að drífa í þessu svona.“
Nánar er fjallað um málið á vef Morgunblaðsins.