Sjálfstæðismaðurinn Magnús Örn Guðmundsson, bæjarstjórnarfulltrúi á Seltjarnarnesi, er nýkjörinn stjórnarformaður Strætó. Nokkrar umræður hafa spunnist um þetta á Twitter þar sem Magnús er vændur um að vera andsnúinn almenningssamgöngum.
Í þeim umræðum er vitnað í nýlega frétt RÚV þar sem spurt er hvort stjórnarmenn Strætó noti strætisvagna. Kemur þar fram að tveir af sex segjast nota strætisvagna reglulega. Magnús Örn Guðmundsson svaraði hins vegar ekki fyrirspurn RÚV um málið. Um þetta segir Felix Bergsson á Twitter: „Úff“.
Og íþróttafréttamaður RÚV, Einar Örn Jónsson, og Guðmundur Ari taka til máls:
Svaraði ekki fyrirspurninni heldur… Var það ekki hann sem kvartaði við borgina af því einhver ljós á leiðinni hans í vinnuna voru ekki nógu bílvæn? Alltaf eitthvað gangandi fólk að þvælast yfir á gönguljósi.
— Einar Örn Jónsson (@RanieNro) July 4, 2022
Þess má geta að Magnús kaus gegn Borgarlínu í bæjarstjórn og var þar í hópi fárra sveitarstjórnarmanna. Í frambjóðendakynningu fyrir prófkjör Sjálfstæðisflokksins árið 2018 á Vísir.is kom fram að Magnús teldi brýnt að þrengja ekki að umferð einkabíla:
„Skipulags- og umferðarmál þurfi að hugsa með hagsmuni Seltirninga að leiðarljósi og gæta þarf fyllstu aðgátar við viðkvæm náttúrusvæði bæjarins. Tryggja þarf að ekki verði þrengt frekar að umferð einkabílsins, sem eru hinar raunverulegu almenningssamgöngur Seltirninga.“