Veitingastaðurinn Spaðinn hefur lokað fyrir fullt og allt en síðasti rekstrardagurinn var í gær, sunnudaginn 3.júlí. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þórarnir Ævarssyni, stofnanda og framkvæmdastjóra Spaðans. Í henni kemur fram að rekstur fyrirtækisins hafi „af ýmsum ástæðum gengið erfiðlega undanfarið og hafa eigendur fyrirtækisins leitað allra leiða til að halda rekstrinum gangandi án árangurs“.
Þar kemur einnig fram að skuldir Spaðans séu nær einvörðungu við eigendur fyrirtækisins en þar sem rekstrargrundvöllur er brostinn telja eigendur að réttast sé að hætta starfsemi.
Spaðinn hóf rekstur sinn á vormánuðum árið 2020 og lifði því í rétt rúmlega tvö ár.