Hún var áhugaverð fréttin á Kjarnanum í fyrradag sem unnin var upp úr tölum frá Reykjavíkurborg um launakjör borgarfulltrúa. Þar kemur fram að enginn þeirra er með minna en 1.179 þúsund krónur í laun á mánuði. Hjá sumum borgarfulltrúanna bætast síðan við álagsgreiðslur; fimm borgarfulltrúar eru þannig með 1.456 þúsund krónur á mánuði, formaður borgarráðs fær 1.589 þúsund krónur og forseti borgarstjórnar 1.679 þúsund krónur. Inni í þessum tölum eru ekki greiðslur sem borgarfulltrúarnir fá fyrir setu í stjórnum undirstofnana borgarinnar og það geta verið umtalsverðar fjárhæðir. Laun fyrir stjórnarformennsku í Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins nema sem dæmi 229 þúsund krónum.
„Grunnlaun“ borgarfulltrúa eru sögð 892.134 kr. Samt fer því fjarri að heildarlaun nokkurs borgarfulltrúa liggi þar nærri. Það er engu líkara en verið sé að slá ryki í augu kjósenda. Hafandi sjálfur verið varaborgarfulltrúi minnist ég þess að borgarfulltrúar litu til að mynda á reglulegar utanlandsferðir sem launatengd fríðindi, hvort sem það var ferð til að skoða bílastæði í San Francisco eða skreppitúr á umhverfisráðstefnu í París sem einmitt vildi svo til að var á hentugum tíma til að gera jólainnkaupin.
Ekki nóg með að vel sé gert við borgarfulltrúa í launum heldur fá flestir „fyrstu varaborgarfulltrúar“ sem svo eru kallaðir 911 þúsund krónur í laun á mánuði. Og þar sem alls átta flokkar fengu menn kjörna í borgarstjórn eru þessir viðbótarborgarfulltrúar jafnmargir talsins. Mörgum þótti nóg um þegar borgarfulltrúum var fjölgað úr 15 í 23 en í reynd er 31 kjörinn fulltrúi á framfæri reykvískra útsvarsgreiðenda. Þessir viðbótarfulltrúar eru allir fallkandídatar — þeir náðu ekki inn í borgarstjórnina en fá samt í staðinn tæpa milljón króna að launum á mánuði. Stjórnmálastéttin sér um sína.
Ég hef nokkrum sinnum áður á þessum vettvangi gert starf borgarfulltrúans að umtalsefni og þá skrýtnu stöðu sem uppi er hér í Reykjavík að allir borgarfulltrúar eru í fullu starfi við eitthvað sem ekki er eiginlegt starf á nokkurn eðlilegan mælikvarða heldur félagsstarf enda ekki svo langt síðan litið var á störf borgarfulltrúa sem annasamt aukastarf.
Það að gera alla borgarfulltrúa að atvinnupólitíkusum virðist hafa sprottið af undarlegum misskilningi á eðli borgarstjórnar — að hún væri eins konar minni útgáfa af Alþingi. Það er hún ekki heldur fjölskipað stjórnvald enda ber hún heitið „stjórn“ í nafni sínu og meðan borgarstjórn fundaði í Kaupþingssalnum í Eimskipafélagshúsinu sátu fulltrúar við langborð líkt og stjórnir fyrirtækja. Í reynd hefði verið réttara að fækka borgarfulltrúum en fjölga.
Fjölgun borgarfulltrúa hefur meðal annars átt sinn þátt í því ófremdarástandi sem ríkt hefur síðastliðin fjögur ár. Hvað eftir annað hafa borist fréttir af einelti í borgarstjórninni — já og bara almennt ömurlegum háttum í samskiptum fólks. Því er ekki að undra að traust borgarbúa á kjörnum fulltrúum sínum sé farið veg allrar veraldar eins og sést af reglulegum þjóðarpúlsi Gallups. Fólk sem væri við störf á öðrum vettvangi samhliða gæti til að mynda ekki leyft sér að karpa ítrekað fram á nóttu um ekki neitt (og málfundaæfingarnar í þingsal Alþingis eru hátíð miðað við þrasið í borgarstjórnarsalnum).
Fjöldi fólks úti í borginni hefði mikinn áhuga á að láta gott af sér leiða í störfum að málefnum hennar en dettur ekki til hugar að fórna starfsframa annars staðar fyrir tímabundna setu í borgarstjórn. Með því að gera borgarfulltrúastarfið aftur að hlutastarfi mætti fá hæfara fólk til setu í borgarstjórn, fólk sem áunnið hefði sér traust víðsvegar. Það gæti miðlað af þekkingu sinni og reynslu og væri beintengt við hina ýmsu þætti borgarlífsins. Slíkt er varla reyndin um þessar mundir og síbreikkandi gjá milli stjórnmálamanna og almennings en aðeins sextíu af hundraði manna á kjörskrá greiddu atkvæði í nýliðnum borgarstjórnarkosningum.
Við ákvörðun launa fyrir borgarfulltrúa í hlutastarfi mætti gjarnan taka mið af þóknun stjórnarformanna í skráðum félögum í Kauphöllinni. Þar er um að ræða annasöm aukastörf og meðallaun fyrir þá setu nema 563 þúsund krónum á mánuði.
Þá er engu líkara en borgarfulltrúar séu í keppni í að skara eld að eigin köku með því að fylla sjálfir nefnda- og stjórnarsæti. En samhliða því að gera starf borgarfulltrúans aftur að hlutastarfi væri rétt að borgarfulltrúarnir hættu að einoka sæti í nefndum, ráðum og stjórnum stofnana borgarinnar heldur sættust flokkarnir þess í stað á að velja sérfrótt hæfileikafólk úr sínum röðum til að sitja í þeim sætum. Það gengur til dæmis ekki að fólk sem hefur aldrei svo mikið sem lært bókhald eða kunnað fótum sínum forráð í eigin heimilsrekstri sé skyndilega komið í þá stöðu að sýsla með tugi milljarða króna af almannafé.
Bruðl og óhóf í æðstu stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga setur vont fordæmi fyrir forstöðumenn undirstofnana. Launahlutfallið í A-hluta borgarsjóðs er komið upp í 60%, en milli áranna 2020 og 2021 hækkuðu laun og launatengd gjöld um 12,5% og námu samtals 86 milljörðum á síðasta ári. Skatttekjur borgarinnar hækkuðu á sama tíma aðeins um 7,5%. Launahlutfallið hefur farið hækkandi undanfarin ár en það nam 51% árið 2016. Brýnt er að koma böndum á fjölgun stöðugilda hjá bæði ríki og sveitarfélögum. Laun kjörinna fulltrúa vega vitaskuld ekki þungt í heildarútgjöldum stærstu sveitarfélaga en með auknu aðhaldi þar yrði sett mikilsvert fordæmi um meiri aga í rekstri því eftir höfðinu dansa limirnir.