fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar – Tímamótasamningur fyrir hálfri öld

Rafn Ágúst Ragnarsson
Sunnudaginn 26. júní 2022 17:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líklega er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið mikilvægasti viðskiptasamningur sem Íslendingar hafa gert — samningur sem veitti okkur aðgang að innri markaði Evrópusambandsins. Samhliða var lagður grundvöllur að ýmsu öðru samstarfi við ESB — á sviði umhverfismála, rannsókna, menntunar, vinnuréttar, neytendaverndar og menningar. Í krafti samningsins hafa íslensk fyrirtæki getað starfað nánast hindrunarlaust á innri markaðnum, íslenskir fræði- og vísindamenn öðlast tækifæri til samstarfs við aðila innan EES og Íslendingar getað starfað og stundað nám á sömu kjörum og heimamenn.

Aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið var á grundvelli aðildarinnar að Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA, en skömmu eftir inngöngu Íslands í samtökin, yfirgáfu Bretar og Danir þau og gengu í Efnahagsbandalag Evrópu, EBE, forvera ESB. Við blasti að þetta yrði afdrifaríkt fyrir Íslendinga enda mikil viðskipti milli Íslands og ríkjanna tveggja og því brýnt að gerður yrði sérstakur samningur við EBE eftir stækkun þess. Sá samningur var undirritaður 22. júlí 1972 — eða fyrir réttri hálfri öld og er einn hinn mikilvægasti sem Íslendingar hafa gert á sviði viðskipta. Ekki er óvarlegt að segja hann um sumt hliðstæðan samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þó ekki hafi hann verið nándar nærri jafn viðurhlutamikill. Alltént er verðugt að minnast þessa samnings nú á 50 ára afmælinu.

Fullgildingin dróst

Þrátt fyrir að samningurinn við Breta og Dani væri undirritaður sumarið 1972 bólaði ekkert á þingsályktun um heimild til fullgildingar samningsins þegar Alþingi kom saman um haustið. Þetta varð til þess að fyrrverandi viðskiptamálaráðherra, Gylfi Þ. Gíslason, bar upp fyrirspurn til Einars Ágústssonar utanríkisráðherra þess efnis hvenær ríkisstjórnin hygðist leita heimildar Alþingis til að fullgilda samninginn. Í svari Einars kom fram að ríkisstjórnin hefði enga ákvörðun tekið þar að lútandi.

Þá hafði spurst út að ágreiningur væri innan ríkisstjórnarinnar um málið vegna fyrirvara sem báðir viðsemjendur hefðu gert vegna deilunnar um útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Fyrirvari eða bókun ESB var á þá lund að það áskildi sér rétt til að láta tollfríðindi fyrir sjávarafurðir ekki taka gildi nema náðst hefðu samningar um fiskveiðiréttindi sem talin væri viðunandi lausn fyrir aðildarríki EBE. Gylfi benti á að samningurinn gæti tekið gildi þrátt fyrir þessi ákvæði. Hann gæti þá gilt um inn- og útflutning iðnvarnings.

Raunar þurfti ekki að koma neinum á óvart að ágreiningur yrði um þetta mál innan ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar þar sem meirihluti þingmanna hins nýja stjórnarmeirihluta hafði á sínum tíma verið andvígur inngöngu Íslands í EFTA. En þegar þarna var komið sögu blandaðist varla nokkrum hugur um að með inngöngunni var stigið heillaríkt skref í utanríkisviðskiptamálum Íslands og þar með efnahagsmálum. Gylfi benti á í umræðum um fullgildingu samningsins við EBE að óhugsandi hefði verið fyrir Íslendinga að ná svo hagstæðum samningi hefði Ísland ekki gerst aðili að EFTA nokkru fyrr.

Ríkisstjórnin hikar

Í ljósi gífuryrða þingmanna Alþýðubandalagsins og (sumra) þingmanna Framsóknarflokks um inngönguna í EFTA hefði mátt búast við að það yrði fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar þessara flokka að beita sér fyrir úrsögn úr samtökunum. En viti menn, engir tilburðir voru hafðir uppi í þá átt. Þvert á móti var haldið áfram á áður markaðri braut og gerður samningur við stækkað EBE. Gylfi Þ. taldi þó að líklega hefði

„hinna afturhaldssömu, annarlegu sjónarmiða, sem réðu afstöðunni til EFTA-aðildarinnar á sínum tíma, haldið áfram að gæta eitthvað innan stuðningsflokka núverandi ríkisstjórnar og þar hafi verið skýringin á því, hversu mikið hún hefur hikað í málinu og hversu sein hún hefur orðið til aðgerða.“

Gylfi sagði miklu skipta að fullgilda samninginn strax svo hann gæti komið til framkvæmda hvað varðað iðnaðarvarning en tómt mál væri

„að tala um eflingu íslensks útflutningsiðnaðar, nema tollfrjáls markaður skapist til útflutnings í löndum hins nýja Efnahagsbandalags, sem er stærsti markaður Evrópu.“

Það var svo loks 26. febrúar 1973 sem samþykkt var þingsályktun um heimild til fullgildingar á samningum Íslands við EBE og Kola- og stálbandalag Evrópu og samhliða voru samþykktar þær breytingar á stofnsamningi EFTA sem leiddu af úrsögn Bretlands og Danmerkur úr samtökunum. Samningurinn tók til um 70% af heildarútflutningsverðmæti þjóðarbúsins eftir að stækkun EBE var komin til framkvæmda.

Ísland má ekki einangrast

Samningurinn var ekki eingöngu mjög hagfelldur fyrir helstu atvinnugreinar þjóðarinnar á þeim tíma heldur tókst með honum að varðveita viðskiptatengsl við þær þjóðir sem Íslendingar höfðu átt meginviðskipti við um langan aldur. En Gylfi Þ. benti á að samningurinn hefði víðtækari þýðingu því hann styrkti

„almenn tengsl okkar við Vestur-Evrópu. En það hefur grundvallarþýðingu, ekki aðeins frá viðskiptasjónarmiði, heldur einnig frá menningar- og stjórnmálasjónarmiði, að koma í veg fyrir, að Ísland einangrist frá Evrópu. Það hefur grundvallarþýðingu í utanríkisviðskiptamálum og utanríkismálum yfir höfuð að tala, að náin og góð samvinna haldist við Evrópuríki á öllum sviðum.“

Segja má að ráðherranum fyrrverandi hafi hér tekist að kjarna mikilvægi sambandsins við önnur Evrópuríki. Þau orð eiga jafn vel við nú og fyrir hálfri öld. Náin og góð samvinna við Evrópuríki hefur grundvallarþýðingu fyrir Íslendinga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?