„Efnahagslífið er aldrei fyrirséð á Íslandi og fyrir vikið þrífst spákaupmennska í landinu þar sem sveiflukóngarnir ríða röftum, altso þeir efnamenn sem eru úrræðabestir við að koma fjármunum sínum til vinnu á hverjum degi.“
Svona hefst pistill Sigmundar Ernis Rúnarssonar, ritstjóra Fréttablaðsins, en pistillinn birtist í helgarblaði Fréttablaðsins í dag. Sigmundur segir í pistlinum að á meðan umræddir efnahagsmenn koma fjármunum sínum til vinnu situr alþýðan eftir. „Eftir situr alþýða manna sem verður að una við gjaldmiðil sem gengur af göflunum, svo til reglulega, en fyrir vikið er aldrei á vísan að róa í vöxtum og verðlagi í landinu,“ segir hann.
Þá segir Sigmundur að þversagnirnar í þessu öllu saman séu raunalegar. Nefnir hann máli sínu til stuðnings hversu erfitt það er fyrir ungt fólk að koma þaki yfir höfuðið. „Það fer í strangt greiðslumat, svo strangt reyndar að unga fólkið má hafa sig allt við til að komast í gegnum nálarauga lánveitenda. Á endanum liggur það svo fyrir með býsna mikilli nákvæmni hvað fólkið ræður við að taka hátt lán. Og það skal ekki fá krónu meira en það megnar að greiða til baka,“ segir hann.
„En allt eins gerist það daginn eftir að forkólfar Seðlabankans afráða að hækka stýrivexti af ástæðum sem unga fólkið hefur engin tök á að verjast. Forsendubrestur þess sem lántakanda verður alger – og útreikningarnir á greiðslubyrðinni mega þá allt eins heita einhver öfugmælavísa – enda hækka húsnæðislán þessa fólks um tugi þúsunda í hverjum einasta mánuði.“
Sigmundur segir að „hefðbundnir íslenskir íbúðarkaupendur“ glími nú við lífskjararýrnun sem rekja má til þessa. „Nú í vikunni hækkuðu mánaðargreiðslur kaupendanna um liðlega þrjátíu þúsund að meðaltali. Ætla má að dæmigerður fyrstu íbúðar kaupandi takist núna á við um áttatíu þúsund króna þyngri greiðslubyrði en fyrir réttu ári, mánaðarlega,“ segir hann.
„Af hverju í ósköpunum er ekki ráðist að rót vandans?“ spyr Sigmundur þá en rótina segir hann vera „sveiflukóngana“ sem stjórna verðlagningu á fasteignamarkaði. Hann segir að rekja megi ástæðuna fyrir því að þeir stjórni verðlagningunni til þess að eignamyndun er hvergi meiri í nokkrum flokki fjárfestinga en á íbúðamarkaði.
„Þeir sjá sér því leik á borði að kaupa upp heilu og hálfu íbúðablokkirnar til að hagnast á stjórnlausri verðbólgu á fasteignamarkaði.“
Að lokum segir Sigmundur að miðað við allt það regluverk sem tilheyrir íslensku samfélagi þá ætti það að vera auðvelt að taka á þessu vandamáli. „Eða er það svo að sveiflukóngarnir eigi hér frítt spil á kostnað almennings?“