Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Fram kemur að Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, sé launahæst með rúmlega 2,5 milljónir á mánuði. Þetta er byggt á óformlegri könnun Fréttablaðsins á launakjörum í nokkrum af fjölmennustu sveitarfélögum landsins. Aðeins var tekið tillit til launa, ekki aukagreiðslna á borð við símakostnað eða ferðakostnaði.
Garðbæingar greiða Almari Guðmundssyni tæplega 2,5 milljónir á mánuði fyrir að sinna starfi bæjarstjóra en forveri hans, Gunnar Einarsson, var með rúmlega 3 milljónir.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, er í þriðja sæti en hann fær rúmar 2,4 milljónir á mánuði. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, er í fjórða sæti.
Það vekur athygli að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, er aðeins í fimmta sæti launalega séð og stýrir hann þó stærsta sveitarfélagi landsins.
Ekki er búið að semja við Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra í Hafnarfirði, eða Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóra á Seltjarnarnesi, en þessi sveitarfélög hafa lengi verið í fremstu röð þegar kemur að launakjörum bæjarstjóra.
Launahæstu bæjarstjórarnir eru með hærri laun en ráðherrar og seðlabankastjóri. Þeir fjórir launahæstu eru með hærri laun en forsætisráðherra.
Nánar er hægt að lesa um málið í Fréttablaðinu í dag.