„Ég man að hann notaði orðið „wimp“ (gunga, innsk. blaðamanns). Þú ert „wimp“. „Wimp“ er orðið sem ég man eftir.“ Þetta sagði Nicholas Luna, fyrrum aðstoðarmaður Trump, í yfirheyrslunum að sögn CNN um samtal Trump við Pence þar sem hann þrýsti á Pence og hafði í hótunum við hann til að reyna að fá hann til að ógilda niðurstöður forsetakosninganna.
Þingið, með Pence í fararbroddi, átti að staðfesta úrslitin formlega þennan dag.
Trump er sagður hafa sagt við Pence að hann væri ekki „nógu harður“ til að ógilda kosningaúrslitin.
Ivanka Trump, dóttir forsetans og ráðgjafi hans, sagðist einnig muna eftir þessu símtali: „Þegar ég kom inn á skrifstofuna í annað sinn ræddi hann (Donald Trump, innsk. blaðamanns) í síma. Síðar komst ég að, að það var varaforsetinn. Ég hafði aldrei heyrt hann nota þennan tón við varaforsetann áður.“
Julie Radford, starfsmannastjóri Ivanka, sagði rannsóknarnefndinni að Ivanka hefði sagt henni að faðir hennar hefði verið mjög æstur þegar hann ræddi við Pence. Þegar fulltrúar í rannsóknarnefndinni spurðu Ivanka hvað faðir hennar hefði kallað Pence í samtalinu var svarið: „P-orðið“ (pussy, innsk. blaðamanns).
Markmið rannsóknarinnar er að sanna að Trump hafi staðið á bak við árásina á þinghúsið og að hann hafi í raun reynt að ræna völdum.