„Þeir harðsnúnu hagsmunahópar, sem mestu ráða hér á Íslandi, bæði innan þings og utan, geta orðið erfiðir viðureignar. Ég treysti þó á drengskap og þjóðhollustu þeirra manna, sem stjórna þessum hagsmunahópum, því öllum er ljóst, að svona getur þetta ekki lengur gengið.“
Þannig komst Davíð Scheving Thorsteinsson, formaður Félags íslenskra iðnrekenda, að orði á ársfundi félagsins 1975 er hann kynnti tillögur að umbótum í efnahagsmálum. Davíð lést í apríl síðastliðnum, 92 ára að aldri. Hann var meðal kunnustu forystumanna íslensks atvinnulífs en aðalstarf hans um ævina var rekstur verksmiðjanna Smjörlíkis og Sólar.
Ef við víkjum nánar að þeim tillögum sem Davíð kynnti á ársfundi iðnrekenda 1975 þá fólust þær meðal annars í því að
• gengi krónunnar yrði rétt skráð, þannig að sem mest jafnvægi yrði á gjaldeyristekjum og gjaldeyrisnotkun þjóðarinnar.
• allar útflutningsbætur yrðu afnumdar í áföngum á tíu árum.
• auðlindaskattur yrði tekin upp, svo að þeir sem nýttu auðlindir lands og sjávar greiddu fyrir afnotin.
• lög og ákvæði sem orsökuðu sjálfvirkni við gerð fjárlaga yrðu afnumin.
• fjárlög yrðu á þenslutíma aldrei afgreidd með halla og skuldasöfnun.
• hætt yrði útgáfu verðtryggðra spariskírteina ríkissjóðs til að fjármagna óarðbærar framkvæmdir.
• arðsemissjónarmið yrðu látin ráða fjárfestingu í atvinnuvegunum og lagasetningu vegna þeirra.
• rofin yrðu tengsl verðmyndunarkerfis landbúnaðarvara við afkomu annarra atvinnuvega og þess í stað miðað við erlent markaðsverð búvöru.
• öllum niðurgreiðslum yrði hætt og söluskattur lækkaður að sama skapi.
• samið yrði um kjör opinberra starfsmanna og starfsmanna við byggingar, samgöngur, verslun og þjónustu á grundvelli samninga við þá sem störfuðu við vöruframleiðslugreinarnar, þ.e. fiskveiðar, fiskiðnað og framleiðsluiðnað.
• tekin yrði upp kaupgreiðsluvísitala sem myndi breytast í samræmi við raunverulegar þjóðartekjur.
• peningamagn í umferð ykist ekki meira frá ári til árs en næmi vexti þjóðarframleiðslu.
Það var ekki nema von að maður sem talaði með jafnbeinskeyttum hætti um stóru málin væri orðaður við framboð til Alþingis. Þegar Davíð var einhverju sinni spurður að því hvort hann ætlaði ekki að gefa kost á sér í prófkjöri sjálfstæðismanna svaraði hann:
„Til hvers? Ég á góða konu og góð börn, stjórna fyrirtæki sem ég hef gaman af að reka, er í forystu samtaka sem skipta máli og til hvers þá að reyna að komast á Alþingi?“
Baráttan fyrir hagsmunum þjóðarbúsins er víðar háð en í þingsölum og alls óvíst að Davíð hefði gert meira gagn í þeim efnum hefði hann orðið stjórnmálamaður. En líklega var sterk staða hans í þjóðfélagsumræðunni ekki síst tilkomin af því að hann ræddi málefni atvinnulífsins af meiri hreinskilni en þá tíðkaðist og kynnti leiðir sem almenningur skildi að gætu orðið til að leysa þann djúpstæða vanda sem steðjað hafði að þjóðarbúskapnum um áratugaskeið, vandræði sem höfðu þegar þarna var komið sögu um 1980, gert Ísland að efnahagslegu viðundri.
Í viðtali við Morgunblaðið 1980 benti Davíð á að samkeppnisatvinnuvegirnir þrír hér á landi, fiskveiðar, fiskiðnaður og framleiðsluiðnaður hefðu aldrei notið eðlilegra starfsskilyrða. Skapa yrði íslenskum fyrirtækjum sambærilegt rekstrarumhverfi og fyrirtækjum nágrannalandanna þannig að þau gætu starfað án afskipta stjórnvalda.
Á ársþingi Félags íslenskra iðnrekenda 1982 gagnrýndi Davíð m.a. gífurlegar erlendar lántökur þjóðarbúsins sem að verulegu leyti fóru í neyslu — ekki arðbæra fjárfestingu. Undangengin áratug hefði landflóttinn verið mikill — einkum og sér í lagi vegna þess að margir hefðu átt erfitt með að fá vinnu við sitt hæfi hérlendis. Til þess að stöðva atgervisflóttann og fá einhverja hinna brottfluttu til að snúa heim, og til þess að stöðva söfnun erlendra skulda, til þess að bæta lífskjörin og til þess að tryggja sjálfstæði þjóðarinnar — þá yrði að auka framleiðsluna:
„Framleiðslan er grundvöllur allra lífsgæðanna. Það er framleiðslan í þessu landi, sem stendur undir velferðarríkinu. Þegar ég fæddist voru 8% launþega opinberir starfsmenn. Nú eru þeir um það bil 26%. Auðvitað er það framleiðslan sem þessi yfirbygging hvílir öll á. En nú virðist, sem þetta undirstöðuatriði sé gleymt.“
Alþýðubandalagsmenn brugðust illa við þessari ræðu Davíðs en höfundur forystugreinar Morgunblaðsins benti þá á að þau viðbrögð skýrðu vel hvers vegna stjórnmálamenn nytu æ minni virðingar meðal þeirra sem enn legðu það á sig að stunda atvinnurekstur í landinu. Það hefði komið fram hvað eftir annað í ræðum athafnamanna og þeirra sem hefðu „jarðsamband“ í íslensku þjóðlífi að þeim fyndust stjórnmálamennirnir lifa í gerviveröld.
Blessunarlega hefur flest í efnahagslífi þjóðarinnar færst til betri vegar á síðastliðnum fjörutíu árum. Þó er sitthvað af því sem Davíð gagnrýndi enn í ólestri. Enn eru fjárlög á þenslutímum afgreidd með halla og skuldasöfnun, hið opinbera þenst út á ógnarhraða, enn fjölgar ríkisstarfsmönnum og ekki hefur tekist að koma á þeirri skipun sem ríkir á hinum Norðurlöndunum — að fyrst sé samið um kaup og kjör starfsfólks í útflutningsgreinum og samningar annarra hópa taki mið af þeim. Þvert á móti hafa einstaka hálaunahópar ríkisstarfsmanna tekið til sín launahækkanir langt umfram aðra á vinnumarkaði.
Og því miður eru fáir ef nokkrir í umræðunni á okkar dögum sem ná að koma orðum að vandræðum þjóðarbúsins með jafnbeinskeyttum og skýrum hætti og Davíð Scheving Thorsteinsson gerði — þannig að þorri fólks leggi við hlustir. Þór Sigfússon benti á það í minningarorðum um Davíð að hann hefði skilið betur en flestir samferðamanna óþolinmæði ungs fólks fyrir breytingum á ýmsu í frjálsræðisátt:
„Hann stóð upp úr skaranum; hávaxinn og glæsilegur maður sem sífellt kom á óvart með hreinskiptnar skoðanir og baráttu fyrir ýmsum frelsis- og framfaramálum, stórum og smáum.“
Óskandi væri að við ættum fleiri slíka forystumenn, hvort sem er í stjórnmálum, atvinnulífi eða stéttarfélögum.