fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Eyjan

Logi hættir sem formaður – „Sannfærður um að aðrir geti gert betur en ég“

Eyjan
Laugardaginn 18. júní 2022 09:38

Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Logi Einarsson ætlar að stíga til hliðar sem formaður Samfylkingarinnar, en hann greinir frá því í viðtali við Fréttablaðið að hann muni ekki gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku á næsta landsfundi sem haldinn verður í haust. Kominn sé tími fyrir aðra að taka við keflinu.

Logi segir að aldrei hafi staðið til að vera lengi formaður. Öðruvísi hafi þó farið að hafi hann nú setið lengur sem formaður en nokkur annar í Samfylkingunni.

„Það var augljóst eftir þingkosningarnar síðastliðið haust að flokkurinn uppskar ekki það sem liðsmenn hans vonuðust eftir og mér fannst þá gefið að ég myndi axla mín skinn,“ segir Logi og bætir við að hann hafi ætlað að hætta sem formaður strax eftir úrslit kosninga en hafi verið hvattur til að bíða með þá ákvörðun.

Hann segist kveðja formennskuna sáttur, þó hann sé vissulega að axla ábyrgð. „Við skulum ekkert horfa framhjá því. Ég er að hætta sem formaður af því að ég er sannfærður um að aðrir geti gert betur en ég.“

Útfarastjóri Samfylkingarinnar

Logi rifjar upp að er hann tók við formennskunni árið 2016 hafi Samfylkingin beðið afhroð í kosningum og aðeins fengið þrjá þingmenn kjörna eftir að hafa nokkrum árum fyrr haft tuttugu þingmenn.

„Ég var kallaður útfararstjóri Samfylkingarinnar þegar ég tók við formennskunni af Oddnýju G. Harðardóttur,“ segir Logi um þennan tíma og tekur fram að Samfylkingin hafi náð sér nokkuð á strik síðan þá og nú spái enginn flokknum dauða heldur velti menn því fyrir sér hvenær hann nái aftur fyrri stærð.

„Núna spá engir Samfylkingunni dauða, heldur spyr fólk sig þeirrar eðlilegu spurningar af hverju flokkurinn sé ekki með að minnsta kosti tuttugu prósenta fylgi. Svarið við því er einfalt, hann á að geta orðið slíkur flokkur, enda hefur hann alla burði til þess, en einn lykillinn að því er að hann fái nýtt blóð í forystuna.“

Logi segist ekki hafa verið beittur þrýstingi til að stíga til hliðar. Hann hafi notið mikils velvilja innan flokksins og mikillar þolinmæði. Nú sé hins vegar tími til að hleypa öðrum að og segist Logi vita til 2-3 einstaklinga innan Samfylkingarinnar sem yrðu góðir leiðtogar. Hann vill þó ekki nefna nein nöfn heldur spyr að móti:

„Er það ekki nokkuð augljóst?“

Hver tekur við?

Í vikunni sem leið velti fyrrum formaður flokksins, Össur Skarphéðinsson, því fyrir sér hvenær Logi ætlaði að stíga til hliðar og taldi Össur nær öruggt að Kristrún Frostadóttir, þingmaður flokksins, yrði næsti formaður.

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi, hefur verið varaformaður flokksins síðan Logi tók við og gætu menn velt því fyrir sér hvort að hún hefði ekki áhuga á að taka við formennskunni.

Helga Vala Helgadóttir er svo þingflokksformaður flokksins og hver veit hvort að hún hafi áhuga á að taka við keflinu af Loga.

Svo er það Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. Hann mun aðeins vera borgarstjóri í 18 mánuði í viðbót og hafa sumir spáð því að hann hafi nú áhuga á að snúa sér að landspólitíkinni og þá jafnvel að hans fyrsta skref verði að bjóða sig fram til formennsku.

Síðan er spurningin hvort að Oddný G. Harðardóttir muni sækjast eftir öðru tækifæri til að leiða flokkinn, en hún hafði aðeins verið formaður í fimm mánuði er gengið var til kosninga árið 2016. Flokkurinn bauð þar afhroð og taldi Oddný niðurstöðuna kalla á afgerandi viðbrögð svo hún steig til hliðar og Logi tók við.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt