Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Fram kemur að Guðmundur hafi á síðustu mánuðum aflað gagna um leigumarkaðinn og segi að þau sýni að óeðlileg fylgni sé á milli hækkunar fasteignaverðs og leiguverðs hér á landi miðað við það sem gerðist í Evrópu á síðustu tíu árum.
Hann segist hafa skoðað allar hreyfingar á íslenska leigumarkaðinum síðustu tíu árin, samfylgni leiguverðs og hækkandi fasteignaverðs, og borið saman við tölur frá Eurostat, tölfræðistofnun ESB, sem sýni þróun fasteigna- og leiguverðs í Evrópu.
„Húsaleiga hækkaði til dæmis um 104 prósent á Íslandi á árabilinu 2011 til 2021, á meðan húsaleiga á meginlandi Evrópu hækkaði um einungis 15 prósent,“ er haft eftir honum. Hann sagði að hvergi í Evrópu hafi hækkandi fasteignaverði verið ýtt af svo miklum krafti út í leiguverðið eins og hér á landi.
„Það gefur okkur tilefni til að áætla að hér hafi í rauninni verið mjög ósanngjörn og óréttlát verðmyndun á leigumarkaði. Leigjendur í Reykjavík búa í raun við eina verstu stöðu sem fyrirfinnst í Evrópu,“ er haft eftir honum.
Nánar er hægt að lesa um málið í Fréttablaðinu í dag.