Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Indriða að hann telji að greina verði á milli eðlilegs rekstrarhagnaðar og hagnaðar af sameiginlegri auðlind. Það sé hagnaður sem tilheyri þjóðinni en ekki fyrirtækjunum.
„Mér sýnist að þetta séu 40–60 milljarðar á ári sem ættu að renna til þjóðarinnar,“ sagði hann. Að hans mati eru margir gallar á kerfinu sem valda því að útgerðin hagnast mikið án þess að ríkið fái sinn hlut. Hann sagði að stór hluti af umframhagnaði útgerðarinnar sé fluttur til fiskvinnslunnar en það getur að hans mati þýtt að 30-40 milljarðar af hagnaði stórútgerðanna sé fluttur á stað sem núverandi veiðigjaldakerfi nái ekki yfir.
Hann sagði að hækkun á fiskverði erlendis skili sér beint í vasa útgerðarinnar því hlutaskiptaverð sjómanna miðist ekki við verð á erlendum mörkuðum og ekki fái starfsfólk í fiskvinnslu hærri laun þegar verð afurðanna hækkar. „Búbótin er ekki þjóðarbúsins heldur er hún fyrir þessar 10 til 15 fjölskyldur sem ráða,“ sagði hann.
Nánar er hægt að lesa um málið í Fréttablaðinu í dag.