Þetta er umfjöllunarefni leiðara Fréttablaðsins í dag en hann skrifar Elín Hirst. Er fyrirsögn hans „Stjórn í lífsháska“. Fyrst rifjar Elín upp Íslandsbankamálið og segir klúður fyrsta orðið sem kemur upp í hugann þegar það mál er skoðað. „Sérmeðferð fárra útvalinna í fjármálakerfinu og útdeiling hraðgróðatækifæra vakti upp alvarlegar spurningar meðal almennings um hvort viðskiptahættir á árunum í kringum bankahrunið væru snúnir aftur,“ segir hún og bendir á að málinu sé alls ekki lokið. Ríkisendurskoðun og fjármálaeftirlitið séu nú að reyna að kafa ofan í það. „Hvort eitthvað kemur út úr þeim rannsóknum sem máli skiptir er allsendis óvíst. Tíminn verður að leiða það í ljós,“ segir hún.
Næst víkur hún að brottvísun 250 flóttamanna frá landinu. „Þessi stóri hópur hælisleitenda hafði dvalið á Íslandi mun lengur en venja er vegna Covid-19. Fjölskyldur voru að sjálfsögðu farnar að festa hér rætur, börn höfðu fæðst og önnur byrjað í leik- eða grunnskóla,“ segir Elín og segir síðan að greinilega hafi soðið upp úr á ríkisstjórnarfundi að morgni 24. maí. Venjulega hvílir leynd yfir því sem fram fer á ríkisstjórnarfundum en ósættið kom berlega í ljós þennan dag:
„Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kom á Fréttavaktina á Hringbraut og sagði að verið væri að skoða samsetningu hópsins. Síðan leið tæpur klukkutími. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra mætti í Kastljós og lýsti því yfir að samstaða væri um verklag í málinu. En þá skapaðist aftur „lífshættulegt“ ástand innan stjórnarinnar aðeins nokkrum vikum eftir Íslandsbankauppákomuna. Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra fékk greinilega nóg við að hlusta á ummæli dómsmálaráðherra. Guðmundur ákvað að rjúfa hinn hefðbundna trúnað sem ríkir á ríkisstjórnarfundum, mætti í beina útsendingu í tíu fréttum Sjónvarpsins og sagði hug sinn í málinu.“
Hún lýkur síðan leiðaranum með þessu orðum: „Í kjölfarið lýsti dómsmálaráðherra því yfir að fjölskyldufólk yrði ekki sent í flóttamannabúðir í Grikklandi. En nægir sú yfirlýsing? Hvað með þá sem eiga til dæmis fötluð börn sem eru orðin 18 ára, eins og írönsk fjölskylda sem verið hefur í fréttum? Flóttamannamálinu er hvergi nærri lokið, fremur en Íslandsbankamálinu og það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig ríkisstjórnin leysir úr þeim.“