fbpx
Laugardagur 16.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Mikilvægi þess að læra þýsku – já og tungumál almennt

Eyjan
Sunnudaginn 29. maí 2022 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það kom sendimaður frá Lundúnum til okkar í gær og hann var með eina ósk: Að við skrifuðum ekki undir neinn samning við Íslendinga, fyrr en útséð væri hvernig niðurstaðan yrði hjá Bretum.“

Svo mælti ungur fulltrúi í samninganefnd Vestur-Þjóðverja við Guðmund H. Garðarsson alþingismann að loknum kvöldverði í Bonn árið 1975 þegar viðræður stóðu sem hæst um lausn deilunnar sem spratt í kjölfar útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur. Vestur-þýski fulltrúinn hafði ekki meira að segja en horfði stundarkorn á Guðmund eins og til að fullvissa sig um að hann skildi hvaða skilaboð voru hér undirliggjandi: Vestur-Þjóðverjar höfðu ákveðið að semja við Íslendinga óháð afstöðu Breta.

Morguninn eftir héldu samningaviðræður áfram en Hans-Jürgen Wischnewski, aðalsamningamaður Vestur-Þjóðverja, stakk upp á því við stjórnmálamennina að þeir létu sérfræðingana ræða sín á milli og féllust Íslendingarnir á þá tillögu. Klukkustund síðar kom Hans G. Andersen þjóðréttarfræðingur skælbrosandi til íslensku þingmannanna, lokaði dyrum herbergisins og sagði: „Ég hefði aldrei trúað því að hægt væri að komast svona langt á frekjunni. Þeir samþykktu bara allt saman!“

Samkomulagið var loks undirritað 28. nóvember 1975 og þar með ljóst að Bretar voru einangraðir í málinu, þeir voru nú eina ríki Atlantshafsbandalagsins sem stóð í deilum við Íslendinga. Þess var ekki langt að bíða að þorskastríðunum lyki með fullum sigri Íslendinga.

Náin pólitísk tengsl

Fyrir nokkrum árum ritaði ég endurminningar Guðmundar H. Garðarssonar en hann er eini fulltrúinn úr viðræðunefndinni um 200 mílurnar sem enn er á lífi. Frásögnina að ofan hafði ég eftir honum og kannaði jafnframt skjöl er málið varða. Þegar þarna var komið sögu um miðjan áttunda áratuginn hafði um nokkra hríð starfað vináttunefnd Alþingis og Sambandsþingsins í Bonn, og einkum voru það þingmenn er verið höfðu við nám í Þýskalandi sem völdust í nefndina. Þar á meðal var Guðmundur sjálfur sem numið hafði hagfræði við Christian-Albrechts-Universität í Kiel. Fleiri þingmenn má nefna, til dæmis Gunnar Thoroddsen sem verið hafði við framhaldsnám í Þýskalandi og Gylfa Þ. Gíslason sem lokið hafði prófum frá háskólanum í Frankfurt. Enginn vafi leikur á að þau nánu tengsl sem mynduð höfðu verið við þýska stjórnmálamenn skiptu sköpum þegar kom að lausn deilunnar um 200 mílurnar.

Róbert Trausti Árnason heitinn, sendiherra og ráðuneytisstjóri, orðaði það eitt sinn svo í samtali okkar að Þjóðverjar ættu það til að vera „hlaðkaldir en baðstofuhlýir“. Ég hef kynnst þessu ágætlega en held að þetta gildi reyndar um fleiri þjóðir. Djúpur skilningur á tungu innfæddra og um leið siðum og háttum þjóðfélagsins er lykillinn að nánum tengslum og þar með að komast „inn í hlýjuna“. Þetta þekkja menn til að mynda í viðskiptum. Og gjarnan heyri ég eldra fólk nefna að þeirra helsta eftirsjá sé að hafa ekki lært fleiri tungumál á yngri árum.

Deutsch für junge Leute

Síðla árs í fyrra fögnuðum við útskriftarárgangur 2000 frá Menntaskólanum í Reykjavík tuttugu ára stúdentsafmæli — raunar hálfu öðru ári of seint svo sem skiljanlegt er á farsóttartímum. En í fögnuði bekkjarins áður en haldið var í samkvæmi með öllum árgangnum ræddum við þrír bekkjarbræðurnir saman dágóða stund (yfir afbragðs fordrykk sem bekkjarsystir okkar hafði blandað af víðkunnri list). Talið barst að okkar góða þýskukennara, Ásu Maríu Valdimarsdóttur, og þá kom upp úr dúrnum að við höfðum allir haft mikið gagn af þeirri þýskukennslu sem við nutum í Menntaskólanum. Þessir félagar mínir höfðu báðir verið sendir til starfa í Þýskalandi á vegum sinna vinnuveitenda þar sem þeir urðu að bjarga sér á tungu innfædda og það gekk prýðilega — en þar skipti grunnurinn úr Menntaskólanum mestu máli. Merkilegt nokk þá var fleira sem sat eftir af þýskunni en ljóðatextar á borð við „O alte Burschenherrlichkeit“ eða Lorelei Heine og Heidenröslein Goethes.

Mig langaði að vekja athygli á þessu nú þegar nokkur þúsund ungmenni fædd 2006 eru að velja sér framhaldsskóla og þurfa þá um leið að velja þriðja tungumál. Því miður hefur nemum í þýsku fækkað hratt undanfarin ár og kennslustundum í þriðja tungumáli raunar fækkað mikið. Líklega er full þörf á að hefja nám í þriðja máli fyrr á skólagöngu nemenda en hvað sem því líður er ástæða til að hvetja verðandi framhaldsskólanema til að velja þýsku sem þriðja mál — hún er helsta tungumál álfunnar og gleymum því ekki að Þýskaland, forysturíki Evrópu, er hvort tveggja í senn eitt mesta menningarríki heims og í hópi öflugustu iðnríkja.

Flest menntafólk í okkar samtíma lætur sér nægja að læra ensku vel en hún dugir ekki alltaf til. Samskipti við útlendinga verða oft yfirborðskennd ef ekki er notast við móðurmál viðkomandi. Tungumál er lykill að menningarheimum og við öðlumst nýjan skilning á veröldinni við hvert það tungumál sem við lærum. Ef enskan er eina erlenda málið sem fólk kann er sýnin á umheiminn að miklu leyti bundin við viðhorf enskumælandi manna. Aukin þekking á tungumálum skapar samkeppnisforskot á vinnumarkaði og gott tungumálanám í framhaldsskóla er ágætur grunnur undir margs konar nám á háskólastigi að ekki sé minnst á möguleika á háskólanámi í fleiri löndum en ella.

Og á örlagastundum í lífi þjóðar getur skipt sköpum að hafa á að skipa forystumönnum sem hafa numið erlendis, sett sig vel inn í sögu og menningu þjóða og myndað vináttubönd sem til að mynda greiddu leið að farsælli niðurstöðu í síðasta þorskastríðinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim
EyjanFastir pennar
04.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!
EyjanFastir pennar
03.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið