Þetta er haft eftir Önnu Hrefnu Ingimundardóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, í Morgunblaðinu í dag. Hún sagði að leiguverð geti hækkað, ekki síst vegna þess að þörf sé á talsverðu af innfluttu vinnuafli og þurfi það fólk að búa einhvers staðar. Auk þess muni flóttamannastraumur valda auknum þrýstingi á leigumarkaðinn.
Hún sagði að það eina sem muni raunverulega lækka húsnæðiskostnað sé aukið framboð. Ekki síst ef hægt væri að byggja hraðar og nákvæmar.
Verkalýðshreyfingin hefur að undanförnu vakið athygli á stöðu leigjenda og bent á að á síðasta ári hafi þeir varið 45% ráðstöfunartekna sinna í leigu en hlutfallið hafi verið 40% 2019.
Anna sagði bæði óskynsamlegt og óframkvæmanlegt að miða leiguverð við ákveðið hlutfall af ráðstöfunartekjum. Leiguverð ráðist af aðstæðum á húsnæðismarkaði og byrði húsnæðiskostnaðar sé afleiðing af þróun undirliggjandi þátta á borð við launa, skatta og verðs þess húsnæðis sem fólk kýs að búa í.