Ölgerðin Egill Skallagrímsson var í gærkvöldi valin samstarfsfélagi ársins (Partner of the Year) hjá danska bjórframleiðandanum Carlsberg.
„Það er mikill heiður fyrir Ölgerðina að hafa fengið þessi verðlaun í ár, enda eru fjölmargir þættir sem Carlsberg horfir til við valið á samstarfsfélaga ársins; þættir sem Ölgerðin hefur uppfyllt með áralangri samvinnu, uppbyggingu og þrotlausri vinnu frábærs starfsfólks fyrirtækisins,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, í tilkynningu til fjölmiðla.
Carlsberg Group veitir einum birgja þessi verðlaun á hverju ári og voru verðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Kaupmannahöfn í gærkvöldi. Fyrirtækið veitir því fyrirtæki sem verður fyrir valinu verðlaunin fyrir að styrkja vörumerki sín í sessi með faglegum vinnubrögðum, sýna frumkvæði og vera í fararbroddi á heimamarkaði.
„Vörumerki Carlsberg Group eru mikilvægur þáttur í okkar starfsemi og við leggjum mikla áherslu á að sinna þessum markaði af kostgæfni og vöndum til verka. Það hefur verið skemmtileg vegferð að vinna með fyrirtækinu og bjóða Íslendingum upp á bæði Carlsberg og Tuborg, sem bruggaðir eru hér á landi með íslensku vatni, enda bjórarnir alltaf vinsælir hjá kröfuhörðum neytendum. Verðlaun Carlsberg eru því mikil viðurkenning á því starfi sem hefur verið unnið hjá Ölgerðinni undanfarin ár og hvernig við erum að standast stífar gæðakröfur Carlsberg,“ segir Andri Þór.
Carlsberg var stofnað árið 1847 og hefur yfir 40.000 starfsmenn víða um heim.