„Ég heyri að Samfylking, Píratar og Viðreisn ætla að fylgjast að í viðræðum næstu daga. Ef Viðreisn fer ekki í meirihluta með Sjálfstæðisflokki, Framsókn og Flokki fólksins er vandséð hvernig D getur komist í meirihluta. Ef S+C+P eru blokk er líklegast að B semji við þá blokk um meirihluta,“ segir Ólafur Þ Harðarson stjórnmálafræðingur í stuttu viðtali við DV um þá möguleika sem nú eru á skákborði stjórnmálanna í Reykjavík eftir kosningaúrslit helgarinnar.
Ólafur segist telja að engar formlegar stjórnarmyndunarviðræður séu hafnar, eingöngu séu þreifingar í gangi. Ólafur segir enn fremur að sú yfirlýsing Viðreisnar að útiloka ekki samstarf til hægri, sem gefin var út eftir yfirlýsingu Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar um að halda hópinn í viðræðum næstu daga, opni á nýja möguleika:
„Það skiptir miklu máli, þá lifir enn möguleikinn D+B+F+C. En samt áhugavert að S+C+P byrji á viðræðum við B. Sérstaklega ef það er fyrsti kostur C.“
Einn af mörgum meirihlutamyndunarmöguleikum í stöðunni er samstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Viðreisnar og Flokks fólksins, sem hefði 12 borgarfulltrúa af 23. Ólafur bendir hins vegar á að það væri kannski ekki klók niðurstaða fyrir Framókn að vinna til hægri miðað við þá áherslu sem flokkurinn hefur, að vera miðjuflokkur:
„Framsókn hefur lagt áherslu á að þeir séu miðjuflokkur. Það hefur sögulega séð þýtt að þeir hafa unnið bæði til hægri og vinstri í ríkisstjórnum og sveitarstjórnum. Í Reykjavík hafa þeir bara unnið til vinstri, nema þegar Björn Ingi vann með D (og það dugði ekki lengi). Núna er B með D í ríkisstjórn og hefur verið með D í meirihluta í Kópavogi og í Hafnarfirði. Vilji B styrkja miðju-ímynd sína gæti verið strategískt hjá þeim að halla sér til vinstri í Reykjavík – og jafnvel hugsa sér til hreyfings í Hafnarfirði. Sigurður Ingi hefur sagt kosningasigra B síðasta haust og núna starfa af því að kjósendur vilji miðjustjórnmál. Vilji B halda þeirri ímynd er ekki klókt fyrir flokkinn að vinna bara til hægri.“