„Við Vinstri græn héldum okkar borgarfulltrúa og er það gleðilegt. Hins vegar eru niðurstöður kosninganna veruleg vonbrigði fyrir okkur.“
Svona hefst færsla sem Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í Reykjavík, birti á Facebook-síðu sinni seinnipartinn í dag. „Við höfðum væntingar til þess að styrkja rödd félagslegs réttlætis, kvenfrelsis og umhverfisverndar í borgarstjórn með því að bæta við okkur borgarfulltrúum. Okkur tókst það ekki. Meirihlutinn tapaði síðan samtals tveimur borgarfulltrúum og er þar með fallinn,“ segir hún.
Þá lætur Líf það í ljós að hún ætli sér ekki að ganga í samstarf með fráfarandi meirihluta. „Eftir að hafa ráðfært mig við félaga mína erum við sammála um að niðurstaða kosninganna kalli á að við Vinstri græn leggjumst vel yfir það hvernig okkur getur tekist betur að koma okkar málefnum til skila,“ segir hún.
„Til þess ætlum við að gefa okkur svigrúm. Ég tilkynnti því samstarfsfélögum mínum í fráfarandi meirihluta að við Vinstri græn sækjumst ekki eftir því að taka þátt í viðræðum um meirihlutasamstarf.“
Svo virðist sem Líf ætli sér heldur ekki að fara í samstarf með neinum til að komast í meirihluta. Hún virðist einnig vera sátt við hlutverk sitt í minnihlutanum. „Við munum veita þeim meirihluta sem verður myndaður öflugt og málefnalegt aðhald og við erum ávallt tilbúin til samstarfs um mál sem miða að framgangi femínisma, félagslegs réttlætis, umhverfisverndar og loftslagsaðgerða,“ segir hún.
Að lokum þakkar hún öllum sem kusu hana fyrir atkvæðið sitt og fólkinu í hreyfinguna sem hjálpuðu til í baráttunni.
„Nú hefst nýr kafli hjá okkur og ég hef alla trú á því að hann verði borgarbúum og lífríki til góðs. Það er til mikils að vinna fyrir framtíðina og fyrir þau sem á eftir okkur koma.“