Útlitið er dökkt hjá Sjálfstæðisflokknum hvað varðar fylgi í Reykjavík í bæjar- og sveitarstjórnarkosningunum sem verða um næstu helgi. Í nýjustu skoðanakönnun Prósents fyrir Fréttablaðið mælist flokkurinn með innan við 17% fylgi og er orðinn þriðji stærsti flokkurinn í borginni.
Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, veltir fyrir sér stöðunni í nýjum pistli. Brynjar segir að Reykjavík standi höllum fæti, fjármál, skipulagsmál og húsnæðismál séu í ólestri en það virðist ekki skipta kjósendur miklu máli:
„Þegar rýnt er í skoðanakannanir og umræðu fyrir borgarstjórnarkosningar spyr maður sjálfan sig um hvaða þessar kosningar snúast. Reykjavík stendur höllum fæti í samanburði við nágrannasveitarfélög þegar kemur að þjónustu við íbúa. Skipulagsmál í samgöngum og húsnæðismálum verið í ólestri í langan tíma. Í ofanálag aukast skuldir borgarsjóðs þrátt fyrir verulega tekjuaukningu. Ef marka má skoðanakannanir skiptir þetta borgarbúa litlu máli. Kannski snúast nútímastjórnmál eingöngu um dygðaskreytingar og aukaatriði eða jafnvel bara um hár borgarstjóra.“
Brynjar hafnar því með öllu að salan á hlut ríkisins í Íslandsbanka hafi verið klúður, en það mál er talið eiga hlut í fylgistapi flokksins:
„Þetta er ekki góð þróun ef satt er. Staða Sjálfstæðisflokksins er greinilega ekki sterk í borginni nú um stundir. Kannski þarf hann að standa sig betur í dygðaskreytingum og lofa meiru en hægt er að efna. Sumir vilja kenna vali á lista flokksins eða jafnvel Íslandsbankasölunni um stöðu flokksins í borginni. Hef ég heyrt í góðum sjálfstæðismönnum að þeir ætli ekki að kjósi flokkinn vegna þessara atriða. Um þetta vil ég segja við mína góðu félaga:
Sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka tókst mjög vel í öllum aðalatriðum og hefur góð áhrif á markaðinn og íslenskt atvinnulíf. Það að faðir formannsins hafi keypt örhlut eins og aðrir sem áttu rétt á því eða eitthvað hafi farið úrskeiðis hjá sölufulltrúum við framkvæmd eru aukaatriði og hvorki á ábyrgð formannsins né Sjálfstæðisflokksins umfram aðra stjórnmálamenn eða flokka.“
Brynjar viðurkennir að hann hafi ekki verið alls kostar sáttur við niðurstöðu í prófkjöri flokksins en segir þó að listinn sé sterkur. Hann segir að Sjálfstæðisflokkurinn eigi mikið erindi í stjórn borgarinnar:
„Það hefur verið krafa sjálfstæðismanna að fram fari prófkjör þannig að flokksmenn hafi allt um það segja hverjir verði í framboði. Við verðum þá að una niðurstöðunni þótt hún sé á annan veg en við vonuðumst eftir. Niðurstaða prófkjörsins var ekki alveg eins og ég vonaðist eftir. Það breytir því ekki að á listanum er öflugt fólk, ekki síst oddvitinn. Stöndum að baki listanum og styðjum frambjóðendur í baráttunni með jákvæðni að vopni. Sjálfstæðisflokkurinn á sannanlega erindi í stjórn borgarinnar. Svo segir allavega sagan. Reykjavík má ekki drabbast niður eins og allar skólabyggingarnar.“